Leikstjórinn Morgan Spurlock er látinn eftir harða baráttu við krabbamein. Hann var aðeins 53 ára.
Morgan Spurlock sló í gegn fyrir tveimur áratugum með heimildarmyndina Super Size Me, þar sem hann skoðaði áhrif þess fyrir heilsu sína, að borða mat frá McDonald´s skyndibitakeðjunni í heilan mánuð.
Fjölskylda leikstjórans staðfesti að hann hefði látist í New York í gær, eftir veikindi.
„Þetta var sorglegur dagur, þegar við kvöddum Morgan bróður minn,“ sagði bróðir hans og samstarfsmaður Craig Spurlock í yfirlýsingu sem NBC News fékk senda í dag. „Morgan gaf svo mikið með list sinni, hugmyndum og örlæti. Heimurinn hefur misst sannan skapandi snilling og sérstakan mann,“ hélt hann áfram. „Ég er svo stoltur af því að hafa unnið með honum.“
Morgan vakti gríðarlega athygli eftir að Super Size Me kom út í maí 2004, þar sem hann sagði frá heilsuferð sinni þegar hann borðaði McDonald’s mat í mánuð. Verkefnið, sem varpar ljósi á áhyggjur af skyndibitaiðnaðinum, hlaut óskarstilnefningu fyrir bestu heimildarmyndina og var síðar fylgt eftir með Super Size Me 2: Holy Chicken! árið 2017.
Morgan lætur eftir sig börnin Laken, 17 ára, sem hann á með fyrrverandi eiginkonu sinni, Alex Jamieson og Kallen, 8 ára, sem hann á með maka sínum Söru Bernstein.
Þó að Morgan hafi að mestu haldið sig frá kastljósinu árin fyrir andlát hans, var síðasta Instagram færsla hans tileinkuð elsta syni hans.
„Til hamingju með afmælið Laken!“ skrifaði hann í desember 2022. „Ég elska þá skapandi, hvetjandi og ástríðufullu manneskju sem þú ert orðinn (svo ekki sé minnst á að vera svona epískur stóri bróðir). Við erum svo heppin að hafa þig í lífi okkar – fáðu nú ökuleyfið þitt svo þú getir keyrt mig um!“
Afturhvarf Morgan úr hinu opinbera lífi kom í kjölfarið af því að hann skrifaði opið bréf í desember 2017 þar sem hann viðurkenndi kynferðisbrot.
„Þegar ég sit og horfi á hetju eftir hetju, mann eftir mann falla vegna fortíðarbrota þeirra, sit ég ekki hjá og velti fyrir mér „hver verður næstur?“ Ég velti því fyrir mér, „hvenær munu þeir sækja mig?“,“ skrifaði hann á sínum tíma og vísaði til fyrirsagna um vafasama hegðun í Hollywood. „Sjáðu til, ég skil, eftir mánuði af þessum opinberunum, að ég er ekki einhver saklaus áhorfandi, ég er líka hluti af vandamálinu.“
Í kjölfar játningarinnar ákvað hann að yfirgefa framleiðslufyrirtæki sitt, Warrior Poets.
Eins og samstarfsaðilar fyrirtækisins Jeremy Chilnick og Matthew Galkin sögðu E! News á þeim tíma: „Fyrir hönd Warrior Poets höfum við sem samstarfsaðilar alltaf stutt fyrirtækið okkar og viðleitni þess. Frá og með deginum í dag mun Morgan Spurlock láta af störfum þegar í stað. Við munum halda áfram að leiða fyrirtækið sem jafnir samstarfsaðilar og framleiða, dreifa og skapa frá sjálfstæða framleiðslufyrirtækinu okkar.“