Sunnudagur 22. desember, 2024
-4.2 C
Reykjavik

Morðin á White House-býlinu: Sex ára tvíburar á meðal fórnarlambanna

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þegar lögreglan hafði brotist inn í húsið í morgunsárið mætti henni ófögur sjón. Lík Nevills lá í eldhúsinu. Hann var í náttfötunum og lá yfir stól nálægt eldstæðinu. Þar bar allt þess merki að átök hefðu átt sér stað. Hann hafði verið skotinn átta sinnum, sex skot höfðu hafnað í höfði hans og andliti og ljóst að færið hafði verið stutt. Tvö skot höfðu hafnað í skrokknum og verið skotið úr aðeins meiri fjarlægð.

Nevill var eitt fimm fórnarlamba í einu versta fjöldamorði sem framið hefur verið í Bretlandi. Morðin eru kennd við White House-býlið í Sussex og á meðal fórnarlambanna voru sex ára tvíburar.

Þorpið Tolleshunt D’Arcy í Essex á Englandi varð vettvangur einna hryllilegustu fjöldamorða sem framin hafa verið í Bretlandi. Voðaatburðirnir sem um ræðir áttu sér stað síðla kvölds 6. ágúst og að morgni 7. ágúst árið 1985 á White House-býli Bamber-hjónanna.

Fimm meðlimir Bamber-fjölskyldunnar lágu í valnum þegar upp var staðið, þar á meðal tvö ung börn.

Syrgjandi sonur

Það sem gerði málið jafnvel enn óhugnanlegra var að sonur hjónanna, Nevill og June Bamber, sem myrt voru, Jeremy Bamber, sem síðar var sakfelldur fyrir morðin, virtist niðurbrotinn og var viðstaddur jarðarför allra fórnarlambanna og tókst vel upp í hlutverki hins syrgjandi ættingja.

Jeremy, sem var ættleiddur sonur Nevill og June Bamber, neitað sök, og gerir víst enn, og sagðist enga hlutdeild hafa átt í morðunum á foreldrum sínum, 28 ára stjúpsystur, Sheilu Caffell, og syni hennar, tvíburunum Daníel og Nicholas, sem þá voru sex ára.

- Auglýsing -

Strax í kjölfar morðanna skellti Jeremy Bamber skuldinni á Sheilu sem hafði verið greind með geðklofa og var á einhverjum lyfjum. Reyndar var það svo að þegar Jeremy kom með lögreglunni á vettvang morðanna lagði hann sig fram um að fullvissa lögregluna um að Sheila væri „klikkuð“ og að auki kunni hún að handleika riffil föður þeirra.

Áður en ósköpin dundu yfir, að sögn Jeremys, hafði ríkt mikil spenna innan fjölskyldunnar og mörg undanfarin ár einkennst af deilum. Í þeim deilum höfðu trúarleg viðhorf June haft mikil áhrif og með árunum höfðu Sheila og Jeremy fjarlægst foreldra sína.

Þennan örlagaríka morgun sagðist Jeremy svo frá að hann hefði vaknað á heimili sínu við símhringingu klukkan hálf fjögur um nóttina. Þegar hann svaraði heyrði hann föður sinn segja: „Sheila er með byssuna, hún er orðin óð, komdu fljótt.“ Að sögn Jeremys rofnaði sambandið áður en fleira var sagt og alltaf á tali þegar hann reyndi að hringja til baka. Jeremy hringdi ekki í neyðarlínuna af ótta við að hann gerði þannig úlfalda úr mýflugu, því Sheila átti að hans sögn til að fá æðisköst. Þess í stað hringdi hann á næstu lögreglustöð og bað lögregluna að hitta sig við býlið.

- Auglýsing -

Undarlegar útskýringar

Síðar fannst lögreglu ýmislegt athugavert við það. Eitt af því sem vafðist fyrir lögreglunni var ástæða þess að Jeremy hringdi á næstu lögreglustöð í stað þess að hringja í Neyðarlínuna. Jeremy útskýrði það með þeim orðum að hann hafi ekki talið skipta máli hvenær lögregluna bæri að garði. Hann hefði varið einhverjum tíma í að finna númerið á lögreglustöðinni og hefði, þrátt fyrir að faðir hans hefði beðið hann að koma sem fyrst, hringt í Julie, kærustu sína, sem bjó í London. Síðan hefði hann ekið í hægðum sínum að býlinu. Þrír lögregluþjónar frá lögreglustöðinni í Witham staðfestu þetta með hægaganginn á Jeremy. Þeir sögðu að hann hlyti að hafa ekið miklu hægar en þeir því þeir hefðu ekið fram úr honum og komið að býlinu heilum tveimur mínútum á undan honum.

Jeremy Bamber
Lögregla fékk að lokum augastað á Jeremy.

Jeremy viðurkenndi að hann hefði að sjálfsögðu getað hringt í vinnumenn á býlinu, en honum hefði einfaldlega ekki komið það í hug.

Áður hafði Jeremy reyndar sagt að hann hefði hringt í lögregluna strax að loknu samtali hans við föður sinn, og síðan hringt í Julie … hann útskýrði það misræmi með því að segjast hafa verið ringlaður á þeim tíma.

Á vettvangi spurði lögreglan Jeremy hvort líklegt væri að Sheila hefði „gengið berserksgang með skotvopn“, svaraði hann: „Ég veit það bara ekki. Hún er klikkuð. Hún er búin að vera í meðferð.“

Þegar lögreglan hafði brotist inn í húsið í morgunsárið mætti henni ófögur sjón. Lík föður Jeremys, lá í eldhúsinu. Hann var í náttfötunum og lá yfir stól nálægt eldstæðinu. Þar bar allt þess merki að átök hefðu átt sér stað. Hann hafði verið skotinn átta sinnum, sex skot höfðu hafnað í höfði hans og andliti og ljóst að færið hafði verið stutt. Tvö skot höfðu hafnað í skrokknum og verið skotið úr aðeins meiri fjarlægð.

June, móðir Jeremys, var látin í svefnherbergi hjónanna og ljóst að hún hafði verið skotin nokkrum sinnum þegar hún hafði reynt að komast úr herberginu. Líkami hennar og náttsloppur var þakinn blóði. Lögreglan taldi að hún hefði verið í sitjandi stellingu þegar hún var skotin, en lík hennar lá við svefnherbergisdyrnar. Hún hafði verið skotin sex sinnum; einu sinni á milli augnanna af stuttu færi, sennilega um 30 sentímetra.

Tvíburarnir höfðu verið skotnir nokkrum sinnum þar sem þeir lágu í rúmi sínu. Daníel hafði fengið fimm skot í hnakkann og Nikolas þrisvar sinnum. Öllum skotum hafði verið skotið af stuttu færi.

Sheila hafði verið skotin tvisvar sinnum. Lík hennar var á gólfi svefnherbergis foreldra hennar, ekki langt frá líki móður hennar. Eitt skotanna hafði hafnað í hálsi hennar og hitt undir hökunni. Hálfsjálfvirkur riffill lá í höndum hennar.

Geðheilsa Sheilu

Þegar Jeremy heyrði smáatriðin fékk hann áfall og virtist með engu skilja hvað hefði gerst og í vitna viðurvist kastaði hann upp á hlaðinu fyrir fram býlið.

Áður en lengra er haldið er vert að huga aðeins að Sheilu og þá sérstaklega geðheilsu hennar. Hún átti að baki óhamingjuríkt hjónaband, en þegar því lauk sótti á hana þunglyndi sem síðar þróaðist í geðklofa með einkenni vænisýki. Í tvígang hafði hún verið lögð inn á sjúkrahús og hafði reyndar verið útskrifuð af sjúkrahúsi aðeins örfáum dögum fyrir morðin. Í læknaskýrslum var til þess tekið að sjúkdómur hennar einkenndist af undarlegum viðhorfum gagnvart tvíburasonum hennar sem hún talaði um sem „börn djöfulsins“

Einnig kom fram að Sheila hafði talað um að svipta sig lífi. Dagana fyrir morðin hafði Sheila ekki tekið lyf sem henni voru nauðsynleg til að hafa hemil á geðsveiflum sínum. Að sögn Jeremys hafði kvöldið áður en morðin voru framin verið rætt hvort koma ætti tvíburunum í fóstur tímabundið vegna veikinda Sheilu og ekki loku fyrir það skotið að sú umræða hefði valdið æðiskasti hjá Sheilu. Vitneskjan um geðheilsu Sheilu og aðkoman á vettvangi morðanna varð til þess að lögreglan dró þá ályktun að Sheila hefði myrt börnin, foreldra sína og síðan svipt sig lífi.

Talið var að Sheila hefði fengið kast og tryllst svo svakalega að hún hefði banað ráðríkum foreldrum sínum og tvíburasonum áður en hún beindi rifflinum að sjálfri sér og svipti sig lífi.

Í fjölmiðlum sem fjölluðu um málið var máluð upp sú mynd af Jeremy að hann væri niðurbrotinn og bugaður af sorg sem skellti sökinni á Sheilu, eða öllu heldur á sjúkdóm hennar í þessu máli öllu.

White House-býlið
Vettvangur grimmilegra morða.

Rúmlega mánuði eftir morðin snerist lögreglunni hugur. Eftir að hafa túlkað vísbendingar á annan hátt komst hún að þeirri niðurstöðu að Jeremy Bamber hefði framið morðin og sviðsett vettvanginn. Reyndar var „Taff“ Jones, sem fór fyrir rannsókninni, þeirrar skoðunar að Sheila hefði framið morðin, en Jones var tekinn úr rannsókninni og lést af slysförum áður en réttarhöld vegna morðanna hófust.

Nýtt sjónarhorn lögreglu

Það sem olli sinnaskiptum lögreglunnar var ekki síst vitnisburður Julie Mugford, kærustu Jeremys, en vitnisburðurinn bendlaði Jeremy við morðin, svo ekki varð um villst að mati lögreglunnar.

Fór þá lögreglan að líta öðrum augum á ýmsar vísbendingar af vettvangi og var þar ýmislegt sem renndi stoðum undir þann grun að Jeremy, sem var orðinn eini eftirlifandi erfingi auðæfa Bamber-hjónanna, væri sá eini seki.

Á meðal þess sem stakk í augun var sú staðreynd að Sheila hafði verið skotin tvisvar sem var í hróplegri mótsögn við þá fullyrðingu að hún hefði framið sjálfsvíg.

Einnig fundust fingraför Jeremys á rifflinum sem hafði verið notaður við morðin og hljóðdeyfir fannst í húsi fjölskyldunnar, fjarri hinum eiginlega vettvangi. Ekki bætti úr skák að Julie sagði að Jeremy hefði iðulega viðrað löngun til að drepa foreldra sína. Lögreglan taldi einnig ólíklegt að brothætt ung kona, sem auk þess var á sterkum lyfjum, hefði haft krafta til að slást við föður sinn, sem var þokkalega stór, og særa hann skoti áður en hún barði han síðan til bana í eldhúsinu, þar sem hann hafði greinilega verið að teygja sig í símann, jafnvel til að ná sambandi við neyðarlínuna.

Eftir að Jeremy var handtekinn mistókst honum að vinna almenning á sitt band og slíkt hið sama átti við eftir að réttarhöld hófust yfir honum. Einhverra hluta vegna hafði gott útlit Jeremys slæm áhrif á fólk sem fannst sem hann væri hrokafullur og stæði nokkurn veginn á sama um allt og alla.

Saksóknarinn fullyrti að Jeremy hefði myrt fjölskyldu sína til að koma höndum yfir arf upp á tæp 500.000 sterlingspund og tíu kviðdómarar af tólf voru sama sinnis og saksóknarinn. Auk umrædds arfs átti Bamber-fjölskyldan viðamiklar eignir; fimm býli, pökkunarverksmiðju að hluta til, og hjólhýsastæði sem velti 1.000.000 sterlingspundum á ári. Saksóknari hélt því fram að Jeremy hefði ekki staðist þá freistingu að myrða fjölskyldu sína til að komast yfir þessar verðmætu eignir.

Veigamikill vitnisburður

Sem fyrr segir grundvallaðist sakfelling Jeremys að hluta til á vitnisburði Julie Mugford, kærustu hans, en þess má geta að kvöldið fyrir morðin sagði vinkona hennar, Liz Rimmington, að hún sjálf hefði átt í kynferðislegu sambandi við Jeremy, og ekki útilokað að henni hafi verið hefnd í huga þegar hún setti sig í samband við lögregluna næsta morgun.

Lögreglan komst að því að Mugford hafði framið glæpi; hún hafði framið innbrot á Osea-hjólhýsastæðinu, sem var í eigu Bamber-hjónanna, verslað með kannabis og komist yfir fé með fölsuðum ávísunum. Lögreglan bauð Julie Mugford friðhelgi gegn því að hún bæri vitni við réttarhöldin yfir Jeremy Bamber. Að sögn áðurnefnds Scotts Lomax greiddi dagblaðið News of the World Julie 25.000 sterlingspund fyrir að segja sögu sína. Að mati verjenda Jeremys hafði Julie verulegan hagnað af því að bera vitni gegn Jeremy; hún náði fram hefnd, komst í álnir og var áfram frjáls kona, þökk sé samningnum við lögregluna.

Drake, dómarinn við réttarhöldin, sagði við Jeremy að Jeremy væri „brenglaður og illur“ og mæltist til þess að hann ekki yrði íhugað að veita honum frelsi fyrr en hann hefði að minnsta kosti verið tuttugu og fimm ár á bak við lás og slá, þannig að hann yrði í fangelsi til 2010. Reyndin er sú að Jeremy er enn á bak við lás og slá. Nú þegar hefur þremur áfrýjunarbeiðnum Jeremys verið hafnað. Nefnd sem fer yfir gömul sakamál þar sem grunur leikur á að menn hafi verið ranglega dæmdir fór yfir sönnunargögn í málinu.

Jeremy Bamber tók lygamælispróf, sem er þáttur meðferðar nefndarinnar, og stóðst prófið. Jeremy hefur ávallt haldið fram sakleysi sínu og hefur gefið í skyn að um samsæri sé að ræða af hálfu annarra fjölskyldumeðlima.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -