Fyrrverandi kærasti ólympíska hlauparans Rebeccu Cheptegei er látinn, eftir að hafa kveikt í Rebeccu og sjálfum sér á dögunum.
Dickson Ndiema hefur verið nefndur sem árásarmaður úganska Ólympíu-hlauparans Rebeccu Cheptegei, í staðbundnum fjölmiðlum. Hann hlaut brunasár á stórum hluta líkama síns í meintu launsátri og lést á sjúkrahúsi í gærkvöldi, að því er Nation Africa greinir frá. Cheptegei, sem var tveggja barna móðir, lést á miðvikudagskvöld í síðustu viku.
Sjá einnig: Ólympíuhlaupari látinn eftir að fyrrum kærasti kveikti í honum: „Megi sál hennar hvíla í friði“
Því er haldið fram að parið fyrrverandi hefði verið að rífast um landareign sem hús Cheptegei er byggt á. Hin 33 ára gamla hlaupakona keypti landið sem staðsett er í Kenía, nálægt landamærum Úganda og byggði heimili sitt þar.
Ndiema er sagður hafa hleypt sér inn á heimili Cheptegei á meðan hún var í kirkju með tveimur börnum sínum, 9 og 11 ára. Lögreglan sagði að hann hafi kveikt í henni í miðjum rifrildum og skilið hana eftir með brunasár á meira en 75 prósent af líkama sínum en hún var flutt með hraði á sjúkrahús.
Lögreglustjórinn Jeremiah ole Kosiom sagði: „Parið heyrðist rífast fyrir utan húsið þeirra. Á meðan á átökunum stóð sást kærastinn hella vökva yfir konuna áður en hann brenndi hana. Hinn grunaði varð einnig fyrir eldinum og hlaut alvarleg brunasár.“
Önnur af dætrum Cheptegei var fljót að finna móður sína í logum en Ndiema er sagður hafa sparkað í hana þegar hún reyndi að koma móður sinni til hjálpar. Hún kallaði á hjálp til að reyna að slökkva eldinn en án árangurs.
Hún sagði við keníska blaðið The Standard: „Hann sparkaði í mig á meðan ég reyndi að koma móður minni til bjargar.“ Hún bætti einnig við: „Ég hrópaði strax á hjálp og laðaði að mér nágranna sem reyndi að slökkva eldinn með vatni, en það var ekki hægt.“
Frjálsíþróttasambandið í Úganda sagði í tilkynningu: „Okkur þykir það mjög sorglegt að tilkynna andlát íþróttakonunnar okkar, Rebeccu Cheptegei snemma í morgun, sem varð fórnarlamb heimilisofbeldis á hörmulegan hátt. Sem samband fordæmum við slíkt verk og köllum eftir réttlæti. Megi sál hennar hvíla í friði.“
Lord Coe, forseti World Athletics, sagði í sinni tilkynningu: „Íþróttin okkar hefur misst hæfileikaríkan íþróttamann við hinar hörmulegustu og mest óhugsandi aðstæður. Rebecca var ótrúlega fjölhæfur hlaupari sem átti enn mikið eftir að gefa á vegum, fjöllum og gönguleiðum.“