Lögreglan í Liverpool leitar nú logandi ljósum að morðingja hinnar níu ára gömlu Oliviu Pratt-Korbel. Móðir stúlkunnar særðist í árásinni.
Að kvöldi síðastliðins mánudags var ókunnugur maður á gangi ásamt öðrum manni fyrir utan heimili Oliviu í Liverpool er grímuklæddur byssumaður réðist að honum. Maðurinn, sem fjölmiðlar í Bretlandi hafa fullyrt að sé smákrimmi að nafni Joseph Nee, flúði inn á heimili Oliviu og móður hennar Cheryl Kerbel og skotmaðurinn á eftir honum. Fjórum skotum var hleypt úr byssu hins grímuklædda manns en þegar árásin var yfirstaðin var Olivia látin og móðir hennar og Nee, særð. Nee fékk í sig fjöldi skota en flúði á svörtum Audi sem vinur hans keyrði. Var Cheryl flutt á sjúkrahús til aðhlynningar en Nee var handtekinn í gær og fékk þá aðhlynningu. Skotmaðurinn slapp af vettvangi áður en lögreglu bar að garði og hefur ekki enn fundist. Mirror fjallaði meðal annarra um málið.
Lögreglan í Liverpool hefur staðið í ströngu undanfarið vegna tveggja annarra morða sem framin hafa verið en í báðum tilfellum hafa meintir morðingjar náðst. Segist hún fullviss um að morðingi Olivu muni finnast. „Við munum finna þig,“ sagði rannsóknalögreglustjórinn Mark Kameen á blaðamannafundi í morgun. „Fulltrúar okkar halda áfram viðamikilli rannsókn á málinu og ég get staðfest að við leitum allra leiða til að leysa þetta.“ Sagði hann ennfremur að morðinginn hafi enn ekki gefið sig fram og kom svo með skilaboð til hans: „Skilaboð mín til hans eru þau sömu, við unum okkur ekki hvíldar fyrr en við finnum þig og við munum finna þig.“
Hér fyrir neðan má sjá myndbandsupptöku sem BBC birti, þar sem heyra má skothvelli fyrir utan heimilið sem og á heimilinu.