Þrettán ára gamall heiðursnemandi í Flórída hefur verið ákærður fyrir að hafa myrt móður sína meðan hún svaf. Neminn, Derek Rosa, bíður réttarhalda í unglingafangelsi í Flórída en talið er að ódæðið hafi náðst á svokallað barnapíutæki sem skynjar hreyfingu. Myndir sem teknar eru á tækið sýna Derek standa yfir rúmi móður sinnar augnabliki áður en hann er sagður hafa stungið hana til bana. Hálfsystir Dereks var sofandi í vöggu við hliðina á rúmi móður sinnar en hafði hún fætt stúlkubarnið fjórtán dögum áður en hún lést.
Derek hringdi á lögregluna um það bil hálftíma síðar og tilkynnti að móðir hans væri látin. Fyrir það sendi hann vini sínum mynd af sér en á myndinni má sjá blóð. Í samtali við neyðarlínuna sagði Derek: „Það er blóð um allt gólfið. Ég var með byssu með mér. Ég ætlaði að skjóta mig, en ég vildi það ekki. Ég vildi það ekki. Það er hnífur í herberginu mínu og það er byssa í stofunni.“ Stjúpfaðir hans bjó einnig í íbúðinni en var hann fjarverandi vegna vinnu.
Derek hefur neitað að hafa banað móður sinni þrátt fyrir fjölda vísbendinga sem benda sterklega til þess að hann hafi einn verið á staðnum. Samkvæmt erlendum fjölmiðlum mun hann standa fyrir rétti sem fullorðinn maður.