Það væri erfitt fyrir Donald Trump að verða forseti Bandaríkjanna ef einugis fólk á Íslandi fengi að taka þátt í þeim kosningum. Aðeins 9% íslenskra kjósenda myndu kjósa forsetann fyrrverandi meðan 91% myndu kjósa Kamala Harris en þetta kemur fram í nýjum Þjóðarpúlsi Gallup. Niðurstaða þessi kemur þó ekki sérstaklega á óvart en Trump hefur í gegnum árin mælst sem óvinsælasti forseti Bandaríkjanna á alþjóðavettvangi. Annað sem kemur ekki á óvart í niðurstöðunni er að kjósendur Miðflokksins eru líklegastir til að vera hrifnari af Trump en Harris en líklegt þykir að þeir sjái margt sameiginlegt í Trump og Sigmundi Davíð, formanni Miðflokksins. Næstum einn af hverjum þremur kjósendum Miðflokksins myndi kjósa Trump. Þá er Harris vinsælli hjá konum á Íslandi og eru 96% þeirra á vagninum hennar meðan 85% karlmanna myndu velja Harris fram yfir Trump. Þá myndu allir kjósendur Vinstri Grænna og Samfylkingarinnar kjósa Harris.