Lík Breta hefur fundist í sjónum við taílenska strönd eftir að ferðamaður sást „rífast heiftarlega“ við óþekktan mann.
Regan Kelly, 28, frá Selsdon, suður Lundúnum, var nýbyrjaður í mánaðarlangri ferð til Taílands þegar hann hvarf snemma 3. janúar eftir að hafa dvalið á Mad Monkey-farfuglaheimilinu á eyjunni Phuket. Sagt er að CCTV myndefni sýnir hann á bar farfuglaheimilisins þar sem hann er að tala við mann sem virðist einnig hafa verið ferðamaður en dvaldi ekki á staðnum.
Sást hlaupa undan manninum
Þeir voru að sögn að spjalla í nokkrar klukkustundir og þeir virtust síðan rífast í myndbandinu en ekkert hljóð er í myndbandinu. Skyndilega stóð Regan upp og fór að sögn systur hans Laurie Blackall, og hann fór niður á Patong-ströndina með hinn manninn á eftir sér.
Síðasta upptakan sem fannst af honum kemur úr öryggismyndavél hótels við sjávarsíðuna, en lögreglan deildi henni með fjölskyldunni. Hún sýnir Regan hlaupa og hinn manninn um 15 sekúndum á eftir honum. Daginn eftir blasti síðan hörmuleg sýn við vatnsíþróttakennara sem fann nakið lík Regans í sjónum um 10 um morguninn. Fjölskylda Regans staðfesti að þetta væri hann, eftir að hafa tilkynnt hvarf hans.
Laurie systir Regan og faðir hans eru nú í Taílandi til að reyna að komast að því hvað gerðist en fjölskyldan skoðar nú fund Regans með manninum á farfuglaheimilinu, í leit að hugsanlegum vísbendingum. Hún sagði að rifrildið hefði sífellt orðið „ákafara“.
Laurie sagði við Mail: „Við erum ekki of viss um hvað þeir voru að tala um, en samtalið virtist frekar ákaft. Það er ekkert hljóð en Regan virtist í uppnámi.“ JustGiving-fjáröflun hefur verið sett á laggirnar til að koma líki Regans aftur heim til Bretlands þar sem einnig er hægt að framkvæma aðra krufningu.
Eitthvað grunsamlegt
„Rannsóknarlögreglumaðurinn sagði að hann hafi unnið sleitulaust en ég veit bara ekki hvort þeir vilji flokka þetta sem hörmulegt slys,“ sagði Laurie. „Ekki misskilja mig, þetta gæti hafa verið slys, en eitthvað segir mér að þetta sé eitthvað grunsamlegt.“ Hún sagði að hún og pabbi hennar hefðu verið í reglulegu sambandi við Regan eftir að hann kom til Taílands 30. desember og því vissu þau að eitthvað væri að þegar þau gátu ekki haft samband við hann 3. janúar.
Regan var í stuttbuxum, Mad Monkey stuttermabol, með svarta hafnaboltahúfu og tösku yfir brjóstkassann þegar hann sást hlaupa í átt að ströndinni. En þegar lík hans fannst var hann nakinn og engar eigur hans voru þar, þar á meðal síminn hans.
Ekki kærulaus drykkjurútur
Laurie sagði: „Okkar megináhersla er að fá hann heim eins fljótt og auðið er og halda áfram að vinna úr því sem gerðist, því fyrir okkur er ekkert uppgjör, þetta er ekki lokað mál.“ Hún lýsti manninum sem hann hafði verið með áður þannig að hann væri eins og ferðamaður í hvítum stuttermabol og stuttbuxum og verið vöðvastæltur.
„Mig langar að beina orðum mínum til þessa manns og að hann segi okkur frá því sem sagt var. Ég vil spyrja hvers vegna Regan virtist vera í uppnámi,“ sagði Laurie. „Kannski var hann bara í ástríðufullu samtali og talaði um lífið. Miðað við það sem við sáum gætu þeir hafa átt mjög djúpt samtal. En það virðist vera að hitna undir lokin, engin líkamleg átök, meira munnleg.“
Hún benti á að byggingarfulltrúinn, bróðir hennar hafi verið „mjög félagslyndur“ náungi sem spjallaði alltaf við fólk og var reyndur ferðalangur en hún bætti við að hann hefði ekki verið „kærulaus drykkjurútur“. Á söfnunarsíðunni stendur: „Regan var aðeins 28 ára og var glöð og ástrík sál. Hann ætlaði að ferðast um Taíland í mánuð en því miður náði hann aðeins nokkrum dögum. Hann var ótrúlegur sonur, bróðir og frændi. Hans verður sárt saknað af öllum vinum hans og fjölskyldu.“