Hæstiréttur Bandaríkjanna sneri í dag við fordæmi sínu, best þekktu sem Roe gegn Wade, sem tryggt hefur konum stjórnarskrárvarinn rétt til þungunarrofs. Dómur Hæstarétts gerir það að verkum að ríki Bandaríkjanna hafa nú aukið svigrúm til þess að setja eftir atvikum verulegar takmarkanir á þungunarrof eða banna það alfarið.
Mál Roe gegn Wade er dómafordæmi frá árinu 1973 sem hefur, allt frá því að dómurinn féll, tryggt konum rétt til þungunarrofs ásamt síðari hæstaréttardómum. Niðurstaða Hæstaréttar Bandaríkjanna í dag heimilar það að lög um bann við þungunarrofi eftir fimmtándu viku meðgöngu fái að standa í Missisippi. Það gengur gegn hinu áratugagamla fordæmi.
Samuel Alito, einn af sex íhaldssömum dómurum við réttinn, skrifar í meirihlutaáliti dómaranna að dómurinn í máli Roe gegn Wade hafi verið rangur frá upphafi. Rökstuðningurinn hafi verið veikur og að hann hafi haft skaðlegar afleiðingar.
Hinir þrír dómararnir, sem eru frjálslyndu dómararnir við réttinn, sögðu að með dómnum væri rétturinn að svíkja grundvallarhugsjónir sínar.
Dómafordæmið í máli Roe gegn Wade tryggði konum rétt til þess að gangast undir þungunarrof áður en fóstur teldist lífvænlegt, sem yfirleitt er í kringum 24. viku meðgöngu. Ríki í Bandaríkjunum sem stjórnað er af repúblikönum hafa undanfarin ár sett upp sífellt strangari takmarkanir á þungunarrof.
Málið kom fyrst upp í síðasta mánuði þegar meirihlutaálitinu var lekið í fjölmiðla. Málið vakti mikla reiði, ekki bara í Bandaríkjunum heldur um allan heim. Um er að ræða sigur fyrir íhaldssama andstæðinga þungunarrofs í Bandaríkjunum, sem barist hafa gegn því í mörg ár.
Mikil ólga er nú í Bandaríkjunum vegna málsins og vart þverfótað fyrir úrskurðinum og viðbrögðum í fjölmiðlum þar ytra.
Tvær fyrrum forsetafrúr Bandaríkjanna hafa stigið fram og tjáð sig um málið. Það eru þær Michelle Obama og Hillary Clinton, sem einnig var utanríkisráðherra Bandaríkjanna í forsetatíð Barracks Obama og mótframbjóðandi Donalds Trump í forsetakosningunum þegar hann fór með sigur af hólmi. Báðar hafa konurnar fordæmt ákvörðun Hæstarétts Bandaríkjanna. Obama sagðist vera miður sín vegna málsins, meðal annars fyrir hönd samlanda sinna sem hefðu nú misst grundvallarrétt til þess að taka upplýstar ákvarðanir um sinn eigin líkama.
„Ákvörðun Hæstaréttsins í dag mun ávallt lifa í minni okkar sem skref aftur á bak í réttindum kvenna og mannréttindum,“ sagði Hillary Clinton.