Mannréttindasamtökin Euro-Mediterranean Human Rights Monitor, sem hefur aðsetur í Genf, segir í nýrri skýrslu að ísraelski herinn hafi drepið að minnsta kosti 560 og sært 1.523 aðra Palestínumenn í atvikum sem tengdust hjálparflutningabílum í stríðinu á Gaza. Þetta kemur fram í frétt Al Jazeera.
Mannfallið samanstendur af óbreyttum palestínskum borgurum sem biðu mannúðaraðstoðar en hungursneyð ríkir á svæðinu, auk hjálparstarfsmanna og Palestínumanna sem bera ábyrgð á vernd og dreifingu hjálpargagna.
„Ísrael notar hungur sem sjálfstæðan stríðsglæp,“ segja samtökin.
Skýrslan kemur í kjölfar nýjustu árásar Ísraelshers á Palestínumenn sem biðu eftir mannúðaraðstoð við Kúveit-hringtorgið í gær en þar létust að minnsta kosti 19 Palestínumenn en yfirvöld á Gaza sögðu að ísraelski herinn hafi notað skriðdreka sína í árásinni. Euro-Med Monitor greinir einnig frá því að ísraelskir skriðdrekar og flygildi hafi verið notuð.
Ísraelsher neitar enn og aftur ábyrgð.
Öllum matarlestum meinaður aðgangur
Philippe Lazzarini, yfirmaður stofnunar Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna í Palestínu (UNRWA), segir að „öllum matarlestum okkar hafi verið meinaður aðgangur“ að norðurhluta Gaza í þessari viku, þrátt fyrir að hungursneyð vofir yfir.
„Með óhindruðum aðgangi er enn hægt að afstýra þessari manngerðu hungursneyð,“ skrifaði hann á samfélagsmiðlinum X.
Ísraelar halda því áfram fram að þeir setji engar takmarkanir á inngöngu mannúðaraðargagna til Gaza-svæðisins, jafnvel þó að Sameinuðu þjóðirnar segi að eitt af hverjum þremur börnum undir tveggja ára verði fyrir mikilli vannæringu í norðurhluta Gaza, þar sem skortur á mat eykst hratt á svæðinu.