Twitter hafnaði tilboðinu í fyrstu en eftir samþykkt stjórnarinnar í gær verður það nú lagt í dóm hluthafa. Í tilkynningu til bandarísku kauphallarinnar kom fram að stjórnin mælti með því að hluthafar samþykki tilboðið. Ef kaupin ganga eftir ætlar Musk að taka Twitter af hlutabréfamarkaði.
Síðustu daga og vikur hefur Musk verið tíðrætt um ritstjórnarreglur Twitter og ritskoðun á samskiptamiðlinum. Hann kveðst einungis ætla að banna ólöglegt efni á miðlinum er hann tekur við taumunum en hefur ekkert gefið upp um hvort kynþáttahatur, netníð eða ýmislegt annað verði bannað.
Mannréttindasamtökin Human Rights Watch hafa umtalsverðar áhyggjur af því að hatursorðræða gæti fengið að standa óáreitt á Twitter ef slakað verður á reglunum. Framkvæmdastjóri Samtaka um borgaraleg réttindi Bandaríkjamanna, ACLU, sagði í samtali við Reuters hættulegt að færa þessi völd öll í hendur eins mans.
Þá sagði talsmaður Amnesty International í Bandaríkjunum við sama miðil að vont væri ef Twitter hættir alfarið að bregðast við hatursorðræðu gegn konum, kynsegin fólki og fleirum á miðlinum.