Fimmtíu og sex ára gamalt mannhvarfsmál hefur nú verið leyst í Derby-skíri í Englandi.
Námuverkamaðurinn og dúfnakappflugsmaðurinn Alfred Swinscoe, 54 ára, týndist í janúar 1967 eftir að hann hafði látið son sinn Gary fá pening fyrir síðustu pöntuninni á Miner´s Arms Pub barinn í Pinxton í Derby-skíri. Alfred rétti syni sínum peninginn og skrapp á útikamarinn. Hann kom aldrei aftur. Hann hvarf með húð og hári.
Þögn fjölskyldunnar
Ráðgátan um hvarfið var svo átakanlegt að flestir í fjölskyldunni neituðu að minnast á það.
Þegar Russell Lowbridge, barnabarn Alfreds ólst upp, vissi hann að hann mætti ekki ræða um afdrif afa síns, sem hvarf á köldu janúarkvöldi 1967.
Flestir töldu að hinn stolti námumaður Derby-skíris, sem kallaður var Sparrow, hefði stungið eiginkonu sína af og sex börn þeirra en stuttu áður hafði hann farið frá henni.
Aðeins Gary, sonur Alfreds og frændi Russell, talaði um þann gamla en hann var sá síðasti sem hafði séð hann á lífi. Hann neitaði að trúa því að faðir sinn hefði látið sig hverfa frá fjölskyldu sinni og gaf vonina aldrei upp á bátinn, allt þar til hann lést árið 2012.
Ósamstæðu sokkarnir
Þegar Gary lést hélt Russell, 61 árs, sem var aðeins fjögurra ára þegar Alfred hvarf, að hann myndi aldrei uppgötva sannleikann um afa sinn. En þá skyndilega, þegar hann fletti samfélagsmiðlum og rakst á lögreglufærslu um lík sem hafði verið grafið upp á akri bónda nokkurs, þekkti hann sokk löngu horfins afa síns.
Uppgötvunin þýddi að loksins hefði svarið við hinni áratugagömlu ráðgátu var komið en Russell vissi að nú kæmu upp spurningar sem hann sé ekki viss um að hann muni nokkru sinni geta fengið svör við.
Örlög Alfreds væru enn á huldu ef bóndinn hefði ekki ákveðið að grafa skurð við hlið líksins og þannig fundið það fyrir einskæra tilviljun. Hann hafði hringt í lögregluna eftir að mennsk bein og karlmannsföt komu upp með gaffli gröfunnar. Áverkar á beinagrindinni leiddu í ljós að Alfred hafði verið myrtur á ofbeldisfullan hátt.
Russell, sem býr í nokkurra mílna fjarlægð frá akrinum, hafði margsinnis keyrt framhjá honum á ævinni. Hann sagði: „Ég fylgdist ekkert sérstaklega með málinu, en þegar lögreglan birti mynd af ósamstæðum sokkum fékk ég skyndilega endurlit (e. flashback), sérstaklega hvað varðaði svörtu sokkana. Ég mundi allt í einu eftir því að ég hafi, sem krakki, klætt mig í sokk af afa og togað þá upp þannig að þeir náðu mér upp að hné. Ég hringdi í lögregluna og þeir komu og tóku lífssýni úr mér. Þá komust þeir að því að þetta var sannarlega Alfred. Ég varð steinhissa og sjokkeraður. Í ljós kom að hann klæddist einmitt ósamstæðu sokkunum þetta kvöld. Það fyrsta sem ég hugsaði var „Aumingja maðurinn, nýfarinn frá eiginkonunni og á vondum stað, leigði herbergi og ekki með fatamálin á hreinu“. En kannski klæddist hann tvennu sokkapari, þetta var um miðjan vetur.“
Sonurinn gafst aldrei upp
Russell sagði að hann hefði sennilega ekki vitað neitt um afa sinn ef ekki væri fyrir Gary, hans nánasta frænda, sem deildi með honum áhuga á dúfnakappflugi, rétt eins og afi hans. „Mamma talaði aldrei um hann og ekki amma heldur. Það var bara Gary frændi. Ég held að það hafi verið eitthvað ósætti í fjölskyldunni af því að hann hafði flutt að heima tæpu ári áður. Alfred gat orðið nokkuð æstur eftir nokkra bjóra og olli oft rifrildum. Restin af fjölskyldunni hætti bara að hugsa um málið og héldu áfram með líf sitt. Gary hins vegar hætti aldrei að tala um hann en hann sagði sögur af honum og sagði oft „ég vildi að ég vissi hvar pabbi væri“. Hann sagði mér að hann hefði farið aftur til Pinxton og leitað í útihúsum, yfirgefnum byggingum, skurðum og ofan í gömlum brunnum, hvar sem Alfred hefði getað dottið eða verið settur, og hann gaf aldrei upp vonina. Hann hélt jafnvel áfram að leita eftir að hann varð eldri, á meðan hann hafði styrk til þess. Hann hélt alltaf að eitthvað glæpsamlegt hefði gerst. Hann var bara venjulegur og einfaldur maður. Hann átti ekki vegabréf, ekki bílpróf og engan bíl. Hann hefði ekki getað hafið nýtt líf einhversstaðar annars staðar.“
Russell heldur áfram: „Gary skrifaði Hjálpræðishernum en þeir fundu aldrei neinar vísbendingar um Alfred. Síðar á ævinni fékk hann lögfræðinga til að leita að dánarvottorði hans, en þeir fundu aldrei neitt heldur. Hann borgaði meira að segja einkaspæjara en allt án árangurs og hann fór með þetta allt á dánarbeð sitt. Þegar Gary lést hugsaði ég strax: „Æ, hvað gerist nú? Við munum aldrei finna út hvað gerðist“. Þegar ég heyrði af líkfundinum vissi ég að ég þyrfti að hafa samband, jafnvel þó að restin af fjölskyldunni vildi það ekki. Ég varð að gera það fyrir Gary frænda.“
Janúarkvöldið 1967
Gary, sem var þrítugur þegar faðir hans hvarf, hélt áfram að hitta pabba sinn eftir að hann hafði farið frá konu sinni Caroline, sem hafði flutt nærri Sutton-inAshfield með börnin og barnabörnin, þar á meðal Russell og móður hans Julie. Þeir voru vanir að hittast á Miners´Arms barnum og fá sér að drekka.
Föstudagskvöldið 27. janúar 1967, var launadagur hjá námuverkamönnunum, að sögn Russell, sem segir: „Gary hafði farið út með félaga sínum um kvöldið og hitt afa á kránni. Hann man eftir því að pabbi hans gaf honum pening fyrir síðustu umferðinni af bjór og leit svo í kringum sig og sá hann fara út. Hann gerði ráð fyrir að hann væri að fara á útisalernið og kæmi strax aftur.
„Næsta morgun kom maðurinn, sem hann hafði gist hjá, heim til okkar í Ashfield og leitaði að honum, því hann hafði ekki komið heim um nóttina og það var dagurinn sem hann þurfti að borga fyrir gistinguna. Hann hélt að hefði strokið í burtu til að losna við að borga.“
Hrottalegt morð
En allar kenningar um að Alfred hefði látið sig hverfa af sjálfstæðum hurfu þegar lík hans uppgötvaðist á akrinum.
Russell segir: „Hann var myrtur á grimmilegan hátt. Hann var barinn í höfuðið og það fundust stunguáverkar við kjálkann, þannig að það gæti hafa verið eftir skóflu eða hugsanlega hnífstungur eftir á. Þeir sögðu að hann hefði barist fyrir lífi sínu. Það voru merki um handleggsbrot, eins og að hann hafi gefið einhverjum gott hægri handar krók. Þeir fundu einnig áverka á rifbeinum hans og baki, eins og hann hefði glímt við einhvern sem hefði kýlt hann í rifbeinin. Lögreglan telur að hann hefði verið skilinn eftir í um viku áður en hann var grafinn, vegna þess að það vantaði nokkra fingur og rifbein, sem bendir til þess að refir eða greifingjar hafi nartað í líkið. Hver sá sem drap hann sneri aftur til að koma í veg fyrir að hann fyndist.“
Skógarrjóðrið við akurinn þar sem líkið fannst, var þekktur staður þar sem hommar hittust í leyni á sjöunda áratugnum, þegar samkynhneigð var ólögleg.
„Var hann grafinn þar af því að þeir vissu að enginn myndi þora að tilkynna eitthvað frá þessum stað? Eða komst afi að því að morðinginn væri samkynhneigður og var hann myrtur svo hann segði ekki frá því?“ spyr Russell. „Lögreglan telur einnig að morðinginn hafi verið á bíl, af því að leiðin að akrinum var nokkuð löng og það voru ekki margir bílar á götunum á þessum tíma. Drápu þeir hann fyrst, eða plötuðu þeir hann til þess að þiggja far og stoppuðu síðan og drápu hann?“
Tveir grunaðir
Mesta sjokkið við uppgötvunina er sú staðreynd að lögreglan er með tvo menn grunaða um verknaðinn en þeir eru báðir látnir og geta ekki verið nefndir á nafn en Russell er góður vinur barnabörn beggja mannanna. „Þetta er fólk sem ég á í daglegum samskiptum við. Þessar fregnir var algjört sjokk í raun,“ sagði Russell.
Einn hinna grunuðu var þekktur ofbeldismaður og þjófur og var á Miners´Arms barnum kvöldið sem Alfred hvarf. Sumir áverkanna sem fundust á líkama Alfreds voru svipaðir þeim sem sá grunaði hafði veitt manni sem hann var dæmdur fyrir að ráðast á í apríl 1966, að sögn lögreglu.
Russell segir: „Frændi minn hafði þegar grunað einn þeirra. Hann hafði sjálfur slegist við hann einu sinni eða tvisvar og hann hafði verið í hernum svo hann þekkti hernaðaraðferðir. Hann hélt alltaf að hann væri aðal grunaður og ögraði honum jafnvel margoft í gegnum árin vegna þeirra grunsemda. En ég er ekki sammála lögreglunni um hinn grunaða manninn. Ég get ekki fengið mig til þess að trúa því að hann hafi líka verið þátttakandi í morðinu. „Lögreglan rakti gögn og segir að ágreiningur þeirra hafi verið tengdur peningum. Ég veit samt ekki hvers vegna, þar sem afi var í vel launuðu starfi.“
Loksins haldin jarðarför
Í janúar gat fjölskyldan loksins haldið jarðaför fyrir Alfred, ofan á Gary og við hlið dóttur sinnar Carol og eiginkonunnar Caroline, sem aldrei giftist aftur, í Sutton-in-Ashfield-kirkjugarðinum. Útförina var framkvæmd af Stephen Blakeley, sem lék PC Younger í sjónvarpsþáttunum Heartbeat og starfar nú sem viðburðastjóri.
„Það er nokkur huggun fyrir fjölskylduna að vita að hann hafi ekki yfirgefið hana og að hann sé ekki lengur týndur. En það er svo sorglegt að greyið Gary frændi fékk aldrei að vita hvað kom fyrir hann,“ sagði Russell. Þó að ráðgátan sem ásótt hefur fjölskylduna í áratugi sé leyst, eru þó enn fjölmörgu ósvarað.
„Nú er það spurningin um ástæðuna,“ segir Russell. „Af hverju gerði einhver honum þetta? Honum kom ekki illa saman við neinn. Hann var ekki ofbeldismaður, hann lenti ekki í slagsmálum og hann var þekktur fyrir að vera gjafmildur. Ég bara skil ekki hvers vegna einhver hefði viljað drepa hann“. Og hann heldur áfram: „Ég trúi því að einhver, einhvers staðar, viti sannleikann. Það gæti verið að sá sem gerði það hafi haldið þessu leyndu allt sitt líf og játað á dánarbeði sínu og að synir þeirra eða dætur viti eitthvað en vilji ekki segja. Ótti minn er að lögreglan muni loka málinu og við munum aldrei komast að því. Ég vona bara að einhver komi fram svo fjölskylda Alfreds geti loksins fundið frið.“
Enn fjölmörgum spurningum ósvarað
Rob Griffin, aðstoðaryfirlögregluþjónn, hjá lögreglunni í Nottingham-skíri, sagði í samtali við fjölmiðla: „Alfred dó á hræðilegasta hátt sem hægt er að hugsa sér. Ekki nóg með að hann hafi orðið fyrir miklum áverkum heldur var hann síðan grafinn á akri svo enginn fyndi hann.
„Það sem gerir þennan glæp enn erfiðari er að það hefur tekið meira en 50 ár að finna líkamsleifar hans og fyrir fjölskylda hans að sameinast ástvini sínum svo hann geti fengið almennilega greftrun. Auðvitað er þetta aðeins lítill léttir fyrir fjölskyldu hans þar sem enn er svo mörgum spurningum ósvarað um hvað gerðist þessa nótt og hvers vegna.“
„Margir þeira sem höfðu verið með Alfred um nóttina, eða þekktu Alfred, eru ekki lengur á lífi og við fáum kannski aldrei heildarmyndina af því sem gerðist í janúar 1967. Það hefur vissulega ekki breytt ákvörðun okkar um að rannsaka þennan glæp og láta engu ósnortið við að finna morðingjann eða morðingjana. Í rannsókn okkar höfum við fundið tvo hugsanlega grunaða menn sem hefðu undir venjulegum kringumstæðum verið handteknir og færðir til yfirheyrslu ef Alfreð hefði verið myrtur í dag. „Við höfum ekki það tækifæri þar sem þeir eru ekki lengur á lífi.“
Umfjöllunin er unnin upp úr frétt Mirror.