Laugardagur 16. nóvember, 2024
-2.3 C
Reykjavik

Pulitzer-blaðamaður segir CIA hafa sprengt Nord Stream 1 og 2: „Með beinni tilskipun frá Biden“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hinn margverðlaunaði blaðamaður Seymour Hersh segir í nýrri frétt að bandaríski sjóherinn og CIA, með hjálp Norðmanna, hafi sprengt gasleiðslu Nord Stream 1 og 2 frá Rússlandi til Þýskalands en ekki Rússar eins og gefið hafði verið í skyn.

Kristinn Hrafnsson ritstjóri Wikileaks skrifaði færslu á Facebook þar sem hann bendir á nýja frétt Pulitzer-verðlaunablaðamanninn Seymour Hersh þar sem hann segir að sjóher Bandaríkjanna og CIA, með aðstoð Norðmanna hafi eftir langan undirbúning, sprengt gasleiðslurnar Nord Stream 1 og 2 sem flutti gas frá Rússlandi til Þýskalands. Er þetta þvert á það sem haldið hefur verið fram hingað til en Rússar hafa verið grunaðir um verknaðinn. Bandaríkjastjórn harðneitar ásökunum.

Blaðamaðurinn Hersh hlaut Pulitzer-verðlaunin fyrir að afhjúpa hræðilega glæpi bandaríkjahers í Víetnamstríðinu en hann vakti einnig verðskulda athygli er hann upplýsti um pyntingar Bandaríkjahers á föngum í Abu Ghraib fangelsinu í Írak. Síðustu ár segir Kristinn hefur Hersh mætt talsverðri gagnrýni fyrir til að mynda, notast mikið við nafnlausa heimildamenn.

Færslu Kristins má lesa hér fyrir neðan:

„Það er rúm hálf öld síðan Seymour (Sy) Hersh, þá ungur blaðamaður, opinberaði sláandi fréttir af fjöldamorði bandarískra hermanna í My Lai í Vietnam, í einum hroðalegasta viðburði í blóðugri sögu stríðsins þar sem 500 óbreyttum og vopnlausum borgurum var slátrað á einum degi í yfirvegaðri sturlun. Það var reynt að þagga málið niður og lagt á ráðin á æðstu valdastöðum Bandaríkjanna að koma höggi á trúverðugleika Sy Hersh. Ekki gékk það eftir og hlaut hann Pulitzer verðlaunin fyrir opinberunina. Það var ekki í myndinni að reyna að smyrja á blaðamanninn að vera handbendi kommúnista fyrir það eitt að benda á óhæfuverk Bandaríkjahers.

Við tók langur blaðamannferill sem skilaði mörgum viðurkenningum og merkilegum sögum. Meðal minnistæðra er opinberun hans á pyntingum Bandaríkjahers á föngum í Abu Ghraib fangelsinu í Írak. Ávallt hefur Sy Hersh verið þyrnir í augum stríðsafla í Ameríku en var samt í áratugi talinn einn merkasti rannsóknarblaðamaður Bandaríkjanna.
Síðasta áratuginn hefur þó tekist að höggva í trúverðugleika blaðamannsins. Það hefur verið áberandi að aðrir blaðamenn verja gjarnan meira púðri í að grafa undan tiltrú á sögum hans en leita að staðfestingum eða afsönnun á réttmæti þeirra. Sérstaklega hafa menn höggvið í að hann notar mikið nafnlausa heimildarmenn og þá um leið sé fréttin dauð og ómerk – afgreitt mál.
Í gær birti Hersh frétt um að Bandaríski sjóherinn og CIA með aðstoð Norðmanna, hafi undirbúið með leynd og löngum fyrirvara, sprengingu gasleiðslu Nord Stream 1 og 2 frá Rússlandi til Þýskalands. Þessi áform um hernaðaraðgerð gegn innviðum í eigu rússneskra, þýskra, franskra og svissneskra fyrirtækja hófust samkvæmt Hersh löngu áður en Rússar réðust inn í Úkraínu fyrir tæpu ári. Það var þyrnir í augum Bandarískra stjórnvalda að Vestur-Evrópa yrði enn háðari ódýru rússnesku gasi en áður var, með aukinni flutningsgetu í neðansjávarleiðslum Nord Stream. Leiðslurnar voru loks sprengdar 21. september með beinni tilskipun frá Biden Bandaríkjaforseta skv Hersh. Bandaríkjamenn (CIA og forsetaembættið) þverneita ábyrgð á verknaðinum og fullyrða nú að frétt Sy Hersh sé röng. Talsmaður Hvíta hússins segir þetta uppspuna frá rótum en forsetaembættið reyndi með skipulegum lekum á liðnu hausti að koma því á flot að Rússar sjálfir hefðu sprengt eigin leiðslur. Illa gékk að festa þá skýringu í sessi enda fylgdu heldur holar skýringar á því hvernig í ósköpunum Rússar ættu að hagnast á þeim sjálfskaða.
Fyrir áhugamenn um blaðamennsku er fróðlegt að fylgjast með viðbrögðum við frétt Sy Hersh. Utan hins enskumælandi fréttaheims er yfirleitt getið að fréttin komi frá Pulitzer verðlaunuðum blaðamanni. Fyrsta umfjöllun Reuters um málið var hins vegar að fréttin væri frá „bloggara“ en Sy Hersh birti fréttina á Substack. Mín spá er að smám saman verði aukin umfjöllun um hversu vafasamur Sy Hersh sé, hann hafi hallast í seinni tíð að „samsæriskenningum“, notist ótæpilega við vafasama nafnlausa heimildarmenn og ekki er útilokað að menn geri því skóna að hann sé handbendi Pútíns en það síðasta er í auknum mæli notað til að höggva í trúverðuleika þeirra sem birta fréttir sem eru ekki forskrifaðar útfrá hagsmunum Bandaríkjastjórnar.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -