Rússneskur ferðafrömuður sem sakaður var um að skipuleggja LGBTQ+ ferðir lést í fangelsi í Moskvu 29. desember. Embættismenn segja að um sjálfsmorð sé að ræða, en stuðningsmenn hans eru ekki sannfærðir.
Andrey Kotov, rússneskur kaupsýslumaður sem sakaður er um að hafa rekið ferðaskrifstofu sem þjónustaði LGBTQ+ ferðamenn, lést í fangelsi í Moskvu nokkrum dögum fyrir áramót. Handtaka hans kom í kjölfar víðtækra aðgerða gegn hinsegin fólki í Rússlandi. Nákvæmar aðstæður dauða hans eru þó enn óljósar. Þó fyrstu fregnir hafi bent til sjálfsvígs, hafa mannréttindafulltrúar og vinir mótmælt þeirri frásögn og fullyrða að Kotov hefði annað hvort verið pyntaður til dauða eða vísvitandi myrtur af yfirvöldum. Hér er það sem rússneski útlagafjölmiðillinn Meduza hefur aflað sér um atburðina í kringum dauða Kotov.
Pyntaður í fangelsi
Andrey Kotov, 48 ára kaupsýslumaður frá Moskvu og yfirmaður ferðaskrifstofunnar Men Travel, fannst látinn í fangageymslum í Moskvu 29. desember. Rússneskir saksóknarar höfðu ákært Kotov fyrir „öfgastefnu“ og sakað hann um að skipuleggja ferðir fyrir LGBTQ+ fólk.
Fyrstu fregnir frá Moskovsky Komsomolets og Telegram-rásunum Baza og Mash, sem báðar hafa tengsl við löggæslu, fullyrtu að Kotov hafi látist af sjálfsvígi. Heimildarmaður lögreglu sagði RIA Novosti að „skurðir hafi fundist“ á líkama Kotovs. Telegram-rásin VChK-OGPU greindi frá því að rakvélablað hafi fundist í klefa hans, en ekkert sjálfsvígsbréf fannst.
Lögfræðingur Kotov sagði við mannréttindasamtökin OVD-Info að rannsakendur hefðu sagt að Kotov hefði svipt sig lífi um klukkan 4:00 að staðartíma. Moskovsky Komsomolets skrifaði að klefafélagi Kotov hafi uppgötvað lík hans á þeim tíma. Hins vegar sagði Eva Merkacheva, meðlimur í mannréttindaráði Rússlandsforseta, við TASS að Kotov hafi fundist látinn um klukkan 2:00 að morgni.
Rússneska rannsóknarnefndin, alríkishegningarþjónustan og embætti saksóknara hafa hafið rannsóknir á dauða Kotovs. Að sögn Kommersant eru rannsakendur að íhuga hvort þeir eigi að kæra starfsmenn gæsluvarðhaldsins fyrir vanrækslu eða aðild að sjálfsvígi.
Hins vegar mótmælti mannréttindaverkefnið Gulagu.net sjálfsvígsútskýringunni og fullyrti að enn sem komið er hafi engar sannanir verið lagðar fram sem styðja þær. Heimildarmaður sagði Gulagu.net að Kotov hefði verið beittur kynferðisofbeldi, settur í lægri stöðu en aðrir fangar og fjárkúgaður í fangelsinu. Samkvæmt Gulagu.net sköpuðu verðir „viljandi aðstæður til að setja pressu á Kotov,“ og dreifðu sögusögnum meðal fanga um kynhneigð hans og þátttöku hans í að skipuleggja LGBTQ+ ferðir. Þessar fullyrðingar hafa ekki verið sannreyndar.
Blaðamaðurinn Alex Moor, vinur Kotovs, gekk enn lengra og lýsti dauða hans sem pólitísku „morði“. Moor segir að Kotov hafi annaðhvort dáið vegna pyntinga eða verið drepinn af ásettu ráði samkvæmt fyrirmælum frá Kreml.
Neituðu honum um lyfjatöku
Kotov var handtekinn 30. nóvember og ákærður fyrir að skipuleggja og taka þátt í „öfgasamtökum“. Rannsakendur fullyrtu að ferðafélag hans, Men Travel, hafi skipulagt ferðir sem fólu í sér „LGBTQ+ áróður“. Kotov neitaði ásökunum og sagði að fyrirtæki hans einbeitti sér eingöngu að ferðaþjónustu. Hann hélt því fram að meðan á gæsluvarðhaldinu stóð hafi hann verið pyntaður með raflosti til að draga fram vitnisburð. Kotov var úrskurðaður í gæsluvarðhald 2. desember og settur í einangrun nánast samstundis. Fangelsið neitaði að taka við pökkum með lyfjum sem hann þurfti að taka daglega.
Viku áður en hann lést birtu rannsakendur að sögn viðbótarákæru á hendur Kotov og sökuðu hann um að framleiða barnaklám. Að sögn Moskovsky Komsomolets voru þessar ásakanir byggðar á fullyrðingum um að Kotov hefði með leynd myndað börn undir lögaldri í búningsklefum. Þessar ásakanir eru enn óstaðfestar og verjendur Kotov hefur ekki staðfest tilvist annars máls gegn honum.
Ef einstaklingar glíma við sjálfsvígshugsanir er bent er á Hjálparsíma Rauða krossins 1717 og netspjall Rauða krossins 1717.is. Opið allan sólarhringinn. Einnig má hafa samband við Píeta-samtökin sem veita ókeypis ráðgjöf í síma 552-2218, allan sólarhringinn. Netspjall Heilsuveru þar sem svarar hjúkrunarfræðingur er líka opið frá kl.8-22 alla daga. Fyrir þau sem misst hafa ástvin í sjálfsvígi má fá stuðning í sorg hjá Sorgarmiðstöð og hjá Pieta samtökunum.