Í gær lést Ravil Maganov, stjórnarmaður í næst stærsta olíuframleiðanda Rússlands og stærsta einkarekna olíufyrirtækinu Lukoil, eftir að hafa dottið út um glugga á sjúkrahúsi í Moskvu. Er Maganov sjöundi rússneski óligarkinn sem deyr á dularfullan hátt síðan innrás Putins inn í Úkraínu hófst. Hér fyrir neðan má sjá yfirferð um andlátin.
Leonid Shulman
Fyrsta dularfulla andlátið átti sér reyndar stað nokkrum vikum áður en stríðið í Úkraínu hófst. Þann 30. janúar fannst hinn sextugi Leonid Shulman, forstjóri Gazprom olíurisans, látinn á baðherbergi í kofa sínum í Leningrad-héraði. Hafði hann sár á úlnliðum og við hlið hans fann lögreglan bréf. Taldi lögreglan að um sjálfsmorð væri að ræða af þeim sökum. Shulman var í veikindaleyfi þegar hann lést.
Alexander Tyulyakov
Daginn eftir að Rússland réðist inn í Úkraínu, þann 25. febrúar, fannst einn af yfirmönnum Gazprom, Alexander Tyulyakov, látinn í kofa nærri St. Pétursborg, samkvæmt rússneska fréttablaðinu Gazeta.
Fannst Tyulyakov hangandi í bílskúr kofans og fann lögreglan bréf við hlið líksins og því töldu rannsakendur að um sjálfsmorð væri að ræða.
Starfsmaður rannsóknarnefndar Leningrad-héraðs sem vann við rannsókn á andlátinu sagði fréttablaðinu Novaya Gazeta, að sérfræðingar í réttarlækningum voru að störfum á vettvangi þegar starfsmenn öryggisþjónustu Gazprom komu og girtu af vettvang glæpsins og héldu lögreglumönnum fyrir utan húsið. Hinn 61 árs gamli Tyulyakov hafði unnið hjá Gazprom í tæp 10 ár er hann lést.
Mikhail Watford
Úkraínsk-rússneski auðjöfurinn Mikhail Watford fannst látinn á heimili sínu í Surrey í Bretlandi, 28. febrúar.
Watford, sem breytti nafni sínu en áður hét hann Tolstosheya, fæddist 1955 í Úkraínu á tímum Sovíetríkjanna og hafði getið sér gott orð í olíu og gas bransanum. Fannst hinn 66 ára Watford hangandi í kaðli í bílskúr heimilisins en það var garðyrkjumaður hans sem fann líkið. Sagði lögreglan í Surrey að ekki væri litið á andlátið sem grunsamlegt, samkvæmt BBC. Watford bjó í húsinu ásamt eistnesku eiginkonu sinni, Jane og þremur börnum þeirra.
Vasily Melnikov
Þann 24. mars, lést milljarðarmæringurinn Vasily Melnikov í glæsihýsi sínu í Nizhny Novgorod, sjöttu stærstu borg Rússlands.
Samkvæmt rannsóknarlögreglu sem ræddi við blaðið Kommersant, fannst Melnikov, sem vann fyrir lyfjafyrirtækið MedStom, látinn ásamt konu sinni Galinu og tveimur sonum. Voru þau öll með stungusár á líkamanum og fundust morðvopnin á vettvangi.
Kommersant fullyrti að rannsakendur ályktuðu sem svo að Melnikov hafi myrt konu sína og börnin sín, 10 ára og fjögurra ára, áður en hann drap sjálfan sig. Nágrannar og ættingjar þeirra efast stórlega um þá kenningu. Samkvæmt hinum úkraínska fréttamiðlinum Glavred, hafði fyrirtæki Melnikov tapað gríðarlegum fjárhæðum á refisaðgerðum Vesturveldanna vegna stríðsins í Úkraínu.
Önnur kenning hljóðar svo, samkvæmt Glavred, að Melnikov hafi lent í útistöðu við fyrrum viðskiptafélaga með þessum afleiðingum. En samkvæmt Kommersant fann lögreglan ekkert sem benti til þess að utanaðkomandi aðili hafi komið að morðunum, engin merki hafi verið um slagsmál eða utanaðkomandi truflun á vettvangi.
Börnin fundust í herbergjum sínum, kona hans í svefnherberginu en Melnikov á baðherberginu með skorna slagæð.
Vladislav Avaev
Þann 18. apríl fannst fyrrum varaforseti Gazprombank, Vladislav Avaev, látinn í rándýru glæsiíbúð sinni í Universitetsky Prospekt-hverfi Moskvu, ásamt eiginkonu sinni og dóttur.
Það var ættingi fjölskyldunnar sem fann líkin eftir að hafa reynt án árangurs að ná sambandi við þau í nokkra daga.
Íbúðin var læst innan frá og fannst skammsbyssa í hendi Avaev en af þeim sökum telja rannsakendur að milljarðamæringurinn hafi myrt konu sína og 13 ára dóttur áður en hann framdi sjálfsvíg.
Einkabankinn Gazprombank er þriðji stærsti banki Rússlands.
Sergey Protosenya
Aðeins degi eftir að Avaev og fjölskylda fannst látin, fannst lík Sergey Protosenya en hann var áður einn af aðal forstjórum orkurisans rússneska, Novatek. Fannst hann ásamt konu sinni og dóttur þann 19. apríl í glæsivillu sem hann leigði á Spáni en þar var fjölskyldan í páskafríi.
Hinn 55 ára milljarðamæringur fannst hengdur í garði villunnar í Lloret de Mar en það var lögreglan í Katalóníu sem fann fjölskylduna. Eiginkona Protosenya og dóttir fundust í rúmum sínum en þeim hafði verið ráðinn bani með eggvopni.
Samkvæmt fréttamiðlunum Telecinco og El Punt Avui, fundust exi og hnífur við hlið Protosenya. Lögreglan rannsakar nú tvær kenningar, að sögn Telecinco. Sú fyrri hljóðar upp á tvöfalt morð og sjálfsvíg Protosenya og hin seinni gerir ráð fyrir að fjölskyldan hafi öll verið myrt og glæpavettvangurinn svo breytt þannig að það liti út eins og heimilisfaðirinn hafi myrt mæðgurnar og síðan hengt sig.
Ravil Maganov
Fjöldi rússneskra fjölmiðla sögðu frá andláti hins 67 ára stjórnarmanns olíurisans Lukoil, Ravil Maganov í gær. Lést hann eftir að hafa dottið út um glugga á sjúkrahúsi en hann ku hafa verið að fá sér sígarettu er hann af klaufaskap sínum féll út um gluggann þó sumir segja hann hafa stokkið út af fúsum og frjálsum vilja.
Heimildir: Newsweek.