Rithöfundurinn Salman Rushdie er vaknaður og farinn að segja brandara.
Hinn indverski rithöfundur Salman Rushdie er kominn úr öndunarvél og er farinn að gantast. Rushdie varð fyrir hrottalegri hnífaárás í miðjum fyrirlestri í New York. Fjölmörg vitni urðu að árásinni en hinn meinti árásarmaður, hinn 24 ára Hadi Matar neitar sök en hann hefur verið kærður fyrir morðtilraun og árás.
Daily Mail segir að Rushdie sé enn á spítala með alvarlega áverka en að kollegi hans, rithöfundurinn Aatish Taseer hafi tvítað því að Rushdie væri „kominn úr öndunarvél og farinn að tala (og grínast).“
Samkvæmt Andrew Wylie, umboðsmanni Rushdie, varð rithöfundurinn fyrir alvarlega skaða á lifrinni og á taugum í handleggnum og að hann myndi sennilega missa annað augað.
Meintur gerandi í árásinni, Hadi Matar, sagðist ekki sekur um morðtilraun og árás er hann var leiddur fyrir dómara í gær. Hadi mætti í réttarsalinn í svörtum og hvítum fangafötum og með hvíta andlitsgrímu.