Flestir þekkja staðalýmindina af leiðinlegu tengdamömmunni en kona í Bandaríkjunum sagði frá slæmu dæmi af einni slíkri.
Sagan hófst þegar eiginmaður hennar lenti í bílslysi og slasaðist á baki en hann var rúmlyggjandi og eiginkonan sá alfarið um að sinna honum. Móðir mannsins sá sig ekki færa í að aðstoða við umönnun en krafðist þess að fá skýrslu sem lýsti ástandi hans klukkustund fyrir klukkustund. Ef eiginkonan gleymdi að senda tengdamóður sinni umrædda skýrslu brást hún harkalega við.
Tengdamamman kom daglega í heimsókn án þess að aðstoða við heimilisstörf eða umönnun á syni sínum heldur skrifaði hún niður það sem henni fannst að betur mætti fara hjá tengdadóttur sinni.
Ástandið fór fyrst að ágerast þegar tengdammaman hringdi og tilkynnti eiginkonu mannsins að ekki hafi verið skipt á rúmi sonar síns. Hvorki sonurinn né tengdadóttir höfðu rætt rúmfataskipti við hana og voru þau því furðu lostin yfir því hvernig hún vissi af því að ekki hafði verið skipt um á rúminu.
Stuttu síðar hringdi systir mannsins í eiginkonuna og sagði henni að móðir þeirra hafi sett upp myndavélar í herbergi hans til að vera viss um að hugsað væri vel um hann. Eiginkonunni var misboðið og tjáði tengdamömmu sinni að hún væri ekki lengur velkomin heim til þeirra hjóna. „Hún missti stjórn á sér og sakaði mig um að koma í veg fyrir að hún hitti son sinn. Hún sagði tilhugsunina um að hitta hann ekki bókstaflega fá hana til að æla,“ sagði eiginkonan er hún leitaði ráða á Reddit þræði.
Eiginmaðurinn og fjölskylda hans furðuðu sig á ákvörðun konunnar og sökuðu hana um að sýna ekki áhyggjufullri móður skilning. „Maðurinn minn er í uppnámi og segir mig vera hefnigjarna. Ef móðir hans fær ekki að koma í heimsókn segist hann ætla að flytja til hennar,“ segir eiginkonan og spyr notendur Reddit hvort hún sé að bregðast rangt við.