Fimleikadrottningin Simone Biles stefnir að keppa á næstu Ólympíuleikum.
Fimleikakonan Simone Biles hefur gefið það út að hún muni reyna keppa á Ólympíuleikunum sem fara fram á næsta ári en hún er nýbyrjuð aftur að keppa eftir tveggja ára hlé. Þá hefur hún glímt við andleg veikindi í þónokkur ár.
„Ég veit ég þarf samt að hugsa betur um mig en nokkru sinni fyrr, hlusta á líkamann og sjá til þess að ég hafi líka tíma fyrir alla mikilvægu hlutina í lífi mínu,“ sagði Biles um málið en hún er sigursælasta fimleikakona í sögu HM. „Núna legg ég líka enn meiri áherslu á andlegu hliðina, til að ganga úr skugga um að ég geti staðið mig sem best á æfingum, verið góð eiginkona, góð dóttir, góð vinkona og allt sem ég þarf og vil vera góð í.“
„Ég held að við þurfum að vera meira varkár en áður í því hvernig við vinnum hlutina fram að Ólympíuleikunum. Þess vegna höfum við reynt að hafa athyglina á mér og endurkomunni í lágmarki til að hugsa betur um andlega og líkamlega líðan mína,“ sagði konan fima að lokum.
RÚV greindi frá.