Sérfræðingar Sameinuðu þjóðanna skora á Ísraela að virða vopnahléssamninginn við Líbanon og hvetja yfirvöld Tel Aviv til að hætta þegar í stað niðurrif húsnæðis, tryggja öryggi almennra borgara sem snúa aftur til heimila sinna og draga her sinn að fullu frá suðurhluta Líbanon.
„Við höfum þungar áhyggjur af áframhaldandi neikvæðum áhrifum sem þetta hefur á almenna borgara í Líbanon. Innan 60 daga frá því að vopnahléið tók gildi hafa að minnsta kosti 57 óbreyttir borgarar verið drepnir og 260 eignir verið eyðilagðar,“ sögðu sérfræðingarnir í yfirlýsingu.
Vopnahléssamkomulagið, sem tók gildi 27. nóvember, fól í sér að ísraelskir hermenn þyrftu að hverfa algjörlega frá Suður-Líbanon innan 60 daga.
„Við erum yfir okkur hneyksluð á því að dráp óbreyttra borgara og kerfisbundin eyðilegging húsnæðis, landbúnaðarlands og annarra mikilvægra innviða í Suður-Líbanon hafi haldið áfram meðan á vopnahléssamkomulaginu stóð,“ sögðu sérfræðingarnir.
„Hernaðaraðgerðir Ísraela hafa hrundið af stað mannúðarkreppu, sem lengist með árásum sem koma í veg fyrir varanlegar lausnir á landflótta. Þessum brotum á alþjóðlegum mannréttindum og mannúðarlögum verður að ljúka strax,“ bættu þeir við.