Bandarískur fréttamaður og níu ára stúlka voru skotin til bana í Orlando í Flórída síðdegis í gær. Skotárásin átti sér stað nærri vettvangi annars morðs sem var framið nokkrum klukkustundum áður en sami maðurinn er grunaður um árásirnar. Í tilkynningu frá lögreglu kemur fram að annar fréttamaður og móðir stúlkunnar hafi einnig særst.
Sjónvarpsfréttamenn voru á staðnum til að fjalla um morð á konu á þrítugsaldri sem var stödd í bíl á svæðinu. Sá grunaði, nítján ára Keith Moses, hafði þá snúið aftur á vettvang þar sem hann skaut á fréttamennina. Árásarmaðurinn hélt þá að húsi í nágrenninu þar sem hann skaut mæðgurnar. Ástand móðurinnar er sagt vera alvarlegt. Fréttamiðillinn BBC greindi frá því að maðurinn hafi verið vopnaður þegar hann var handtekinn en hann á að baki langan sakaferil.