Robert Mueller, sem skipaður var árið 2017 sem sérstakur rannsakandi vegna meintra áhrifa Rússa á bandarísku forsetakosningarnar árið 2016, svaraði í gær spurningum þingmanna Bandaríkjanna um rannsóknina. Afurð rannsóknarinnar var 448 bls. skýrsla sem kom út í apríl síðastliðnum. Spurningarnar voru einkum tengdar aðkomu núverandi forseta, Donald Trump.
Skýrslan hefur verið í sviðsljósi bandarískra stjórnmála undanfarið. Rannsóknin hefur meðal annars leitt af sér að fimm fyrrum starfsmenn Donald Trump hafa verið sóttir til saka fyrir misferli í aðdraganda forsetakosninganna, þar á meðal Paul Manafort, sem stýrði kosningabaráttu Trump, og Michael Cohen, sem er fyrrum lögmaður Trump.
Skýrslan hreinsar Trump ekki af sekt
Mueller var nokkuð fámáll í svörum og neitaði að svara mörgum spurningum eða þylja upp bálka í skýrslunni. Hann sagði þó margt m.a. aðspurður hvort að skýrslan hreinsaði Trump af mögulegu misferli – sagði hann að skýrslan gerði það ekki.
Býsna þung orð í ljósi þess að forsetinn hefur sjálfur farið mikinn í að halda því fram að skýrslan hreinsi nafn hans af misferli í aðdraganda kosninganna. Mueller staðfesti þannig með orðum sínum í gær að svo er ekki. Þá var Mueller spurður hvort að Trump hefði óheiðarlegur í yfirheyrslum á meðan rannsókninni stóð. Mueller svaraði að almennt hefði það verið raunin. Þá kom einnig fram að Trump hefði reynt að hafa áhrif á rannsóknina, en það sem hefði í raun stoppað þær tilraunir hefðu verið neitanir embættismanna að framfylgja óskum forsetans.
Repúblikanar reyndu ítrekað að draga úr trúverðugleika rannsóknarinnar í gær m.a. með því að vísa til þess að um 14 lögfræðingar í teymi Muellers væru demókratar, einhverjir hefðu gefið í kosningasjóði til Hillary Clinton.
Í bandarískum miðlum er nú deilt um hvort að upplýsingar sem Mueller veitti séu nægar fyrir bandaríska þingið til að taka ákvörðun um saksókn (e. impeachment).
Neðri deild þingsins í Bandaríkjunum hefur valdið
Fyrirkomulagið er þannig að neðri deild þingsins tekur ákvörðun um hvort að forsetinn eða æðri embættismaður sé sóttur til saka vegna mögulegra glæpa. Nú liggur því málið hjá neðri deild þingsins. Ef réttarhöld eru ákveðin fara þau fram í efri deild þingsins. Í dag eru demókratar í meirihluta í neðri deildinni en ekki efri deildinni. Þetta er sambærilegt fyrirkomulag og hér í landi með Landsdóm þar sem Alþingi tekur ákvörðun um saksókn á hendur ráðherra og þarf að leggja mat á hvort það sé nægilega rökstuddur grunur fyrir hendi um hvort að ráðherra hafi gerst sekur um glæp.