Starfsfólk ítalska tískuhússins Prada mun hljóta þjálfun í næmni (e. sensitivity) í kjölfar hneykslismáls sem kom upp í lok árs 2018.
Í desember 2018 hlaut Prada mikla gagnrýni fyrir töskuskraut og annan varning sem þótti minna á „blackface“-gervi sem er tengt sögu kynþáttafordóma. Tískuhúsið tók umræddar vörur strax úr sölu og baðst afsökunar á dómgreindarleysinu.
Í gær skrifaði Prada þá undir sáttmála við mannréttindaráð New York-borgar. Í sáttmálanum kemur fram að allt starfsfólk Prada sem starfar í New York muni hljóta ákveðna þjálfun og fræðslu til að koma í veg fyrir að annað mál líkt og það sem kom upp árið 2018 komi aftur upp. Miuccia Prada, yfirhönnuður Prada, mun einnig fá umrædda þjálfun. Um þetta er fjallað á vef New York Times.
Þjálfunin mun þá m.a. fela í sér fræðslu um málefni og réttindabaráttu ýmissa minnihlutahópa.
Eftir þjálfunina mun óháður aðili meta árangur þjálfunarinnar og hafa fyrirtækið undir eftirliti næstu tvö árin.
Tískuhúsinu er þá gert að ráða jafnréttisfulltrúa innan 120 daga, sá mun hafa það hlutverk að yfirfara alla hönnun sem Prada hyggst setja á markað í Bandaríkjunum.
Samskonar sáttmálar við tískuhús Gucci og Prada er þá á teikniborðinu er fram kemur í frétt New York Times en bæði fyrirtækin hafa verið sökuð um rasisma og menningarnám (e. cultural appropriation).