50 ára valdatíð Assad-fjölskyldunnar í Sýrlandi er lokið ef marka má fréttir sem berast úr landinu en samkvæmt sýrlenska ríkissjónvarpinu er fullyrt að Assad forseta hafi verið steypt af stóli af uppreisnarmönnum í landinu.
Talið er forsetinn hafi yfirgefið landið á flótta en borgarastríð hefur geisað í Sýrlandi í rúman áratug en uppreisnarmennirnir náðu á undanförnum dögum að taka yfir stórar borgir í landinu. Í morgun safnaðist mikill fjöldi manns í höfuðborg landsins til að fagna sigri uppreisnarmannanna en Assad-fjölskyldan hefur verið gríðarlega umdeild á valdaskeiði sínu.
Hryðjuverkamenn
Óvíst er hvað þetta þýðir fyrir framtíð landsins en þeir menn sem leiða hóp uppreisnarmannanna eiga rætur sínar að rekja til al-Qaeda og eru skilgreindir af Sameinuðu þjóðunum sem hryðjuverkamenn. Rússar hafa verið helstu stuðningsmenn forsetans fyrrverandi og sagðist utanríkisráðherra Rússlands vorkenna sýrlensku þjóðinni.
Mohammed Ghazi Jalali, forsætisráðherra Sýrlands, sagði í yfirlýsingu að hann myndi ekki yfirgefa landið og væri tilbúinn til að aðstoða við uppbyggingu á nýju stjórnkerfi sem íbúar Sýrlands vilja.