Þrettán ára drengur í Bandaríkjunum var á dögunum dæmdur í tólf ára fangelsi fyrir morðið á hinum 32 ára gamla Matthew Davis. DV greindi frá málinu í dag en drengurinn var tólf ára gamall þegar hann framdi ódæðið.
Þá hafði hann verið staddur á bílastæði ásamt tvítugum frænda sínum þegar starfsmaður veitingastaðar í grenndinni gaf sig á tal við þá. Starfsmaðurinn, Matthew, skammaði frænda drengsins fyrir að kasta af sér þvagi á almanna færi fyrir utan veitingastaðinn. Úr varð rifrildi og ákvað þá drengurinn að grípa til byssu af tegundinni AR-15 og skaut Matthew margsinnis, sem varð honum að bana. Drengurinn mun afplána dóminn að hluta til í fangelsi sem er sérstaklega fyrir ungmenni en verður hann færður til þegar hann nær átján ára aldri.