Lögreglan í Álaborg í Danmörku hefur handtekið tvo menn vegna gruns um aðkomu þeirra að hvarfi ungrar konu um síðustu helgi. Hin 22 ára Mia Skadhauge Stevn sást síðast á eftirlitsmyndavélum stíga upp í bíl aðfararnótt sunnudags.

Ljósmynd: tv2.dk
Lögreglan telur að ýmislegt bendi til þess að hún hafi verið myrt.
Samkvæmt Fréttablaðinu eru hinir handteknu báðir 36 ára og húsleit hefur verið gerð á heimilum þeirra í Østervrå og Flauenskjold. Í frétt TV2 er haft eftir yfirlögregluþjóninum Frank Olsen að framundan sé heljarinnar rannsókn en talið er að mennirnir hafi verið í bílnum sem konan fór upp í.

Lögreglan sendi frá sér yfirlýsingu í morgun þar sem fram kemur að nákvæm skoðun á myndefni úr öryggismyndavélum sem og ábendingar almennings sé það sem hafi komið þeim á sporið. Ekki gat lögreglan veitt frekari upplýsingar um rannsóknina í bili.