Tvítugur faðir hefur verið ákærður fyrir manndráp á dóttur sinni en hann skildi hana eftir í bíl á sólríkum degi.
Faðirinn fór inn á lögreglustöð að sækja eigur sínar en hann hafði setið í fangelsi stuttu áður, meðal þess sem hann sótti var byssa. Þegar hann kom á stöðina kom í ljós að handtökuheimild var á manninum eftir að hafa brotið skilorð. Hann var því handjárnaður á stöðinni en á meðan sat átta mánaða dóttir hans ein úti í bíl.
Faðir stúlkunnar segist hafa grátbeðið lögregluþjónana um að fá að athuga með dóttur sína í bílnum, eða allavega fá að hringja í ættingja sem gæti nálgast hana, hann segir lögregluna ekki hafa leyft honum það. Lögreglan er þó ekki sammála manninum og segir hann ekkert hafa minnst á barn í bíl.
Nokkrum klukkutímum síðar fékk maðurinn loks að hringja í ættingja en það var um seinan, amma stúlkunnar kom að henni látinni í bílnum. Faðirinn var í kjölfarið ákærður fyrir manndráp en fjölskylda hans stendur við bakið á honum og segir lögregluna bera ábyrgð á dauða barnsins.