Stjórnendur Twitter hafa ákveðið að höfða mál gegn auðjöfrinum Elon Musk, eftir að hann hætti við kaup sín á fyrirtækinu. Forsvarsmenn fyrirtækisins höfða málið fyrir dómstólum í Delaware, með það fyrir augum að láta Musk standa við 44 milljarða dala yfirtöku sína á fyrirtækinu, en tilboð hans hljóðaði upp á 54 dali á hvern hlut.
Musk, sem er í dag ríkasti maður heims, samþykkti að festa kaup á samfélagsmiðlarisanum í apríl síðastliðnum. Í síðustu viku tilkynnti hann hins vegar að hann ætlaði sér að hætta við kaupin.
Dómstóllinn í Delaware þarf að skera úr um það hvort Musk sé sannarlega skuldbundinn til kaupanna, eða hvort stjórnendur Twitter hafi í raun brotið gegn skyldum sínum til þess að veita Musk þau gögn sem hann óskaði eftir, sem hafi þá veitt honum rétt til þess að hætta við kaupin.
Í kæru Twitter er Musk sakaður um að hafa viljað hætta við kaupin vegna breytinga á hlutabréfamarkaði, sem hafi haft áhrif á fjármagn hans. Hlutabréf í Tesla, fyrirtæki Musk, hafa fallið á undanförnum mánuðum.
Musk er í kærunni sagður telja sig geta skipt um skoðun og vera þannig undanskilinn lögum. Hann telji sig geta „talað illa um fyrirtækið, raskað starfsemi þess, dregið úr virði hlutabréfa þess og gengið svo á braut.“
Musk telur sig geta hætt við kaupin vegna þess að stjórnendur Twitter hafi ekki veitt honum þau gögn sem hann óskaði eftir vegna gerviaðganga, eða „bots“, en Musk hefur farið mikinn í tengslum við slíka aðganga í færslum sínum á Twitter. Hann hefur sagst ætla að vinna bug á gerviaðgöngunum og eyða þeim af samfélagsmiðlinum. Hann trúði ekki staðhæfingum stjórnenda Twitter um það að um 5 prósent virkra notenda miðilsins væru gerviaðgangar og sagði stjórnendurna hafa komið í veg fyrir að hann fengi frekari upplýsingar á bak við töluna.
Stjórnendur Twitter segja rökstuðning Musk einungis yfirvarp, svo hann geti „smokrað sér út úr samningnum.“
Frá undirskrift tilboðs Musk upp á 54,20 dali á hluta hefur hlutabréfaverð Twitter fallið um meira en 35 prósent.