Kona sem hvarf sem barn árið 1981, er fundin. Foreldrar konunnar, Holly Clouse, fundust myrtir í skógi í Texas árið 1981 en ekki var hægt að bera kennsl á þau á þeim tíma. Áratugum síðar, með hjálp samtakanna Identifinders International, komust þau að þeirri niðurstöðu að hjónin sem fundust voru þau Tina og Harold Clouse. Auk þess komust þau að því að hjónin áttu barn sem fannst ekki hjá þeim í skóginum.
„Þau voru ungt par og þegar við fréttum að þau áttu unga dóttur, hófst leitin að Holly,‘‘ sagði Brent Webster, fyrsti aðstoðarsaksóknari í Texas. Í ljós kom að Holly hafði verið tekin af meðlimum trúarsamtaka og skilin eftir í kirkju í Arizona.
„Tvær konur sem sögðust vera meðlimir trúarhóps. Þær voru klæddar hvítum skikkjum og berfættar. Gáfu þær til kynna að trúarbrögð þeirra innihéldu aðskilnað karlkyns og kvenkyns meðlima. Þá sögðust þær aðeins borða grænmeti og ekki nota eða klæðast leðurvörum.“ Holly var í kjölfarið ættleidd og alin upp af nýrri fjölskyldu. Í dag er hún 42 ára gömul, búsett í Oklahoma með fimm börnum sínum. Eftir áratugi hefur hún verið kynnt fyrir líffræðilegri fjölskyldu sinni, á ný.