Utanríkisráðherra Noregs segir að það ætti ekki að „beita milljónum manna hóprefsingu“ með því að hætta greiðslum til Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna í Palestínu.
Espen Barth Eide, forsætisráðherra Noregs sendi frá sér yfirlýsingu í gær þar sem hann útskýrir ákvörðun Noregs að halda áfram styrkjum sínum til Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna í Palestínu (e. UNRWA), þrátt fyrir ásakanir ísraelskra stjórnvalda á hendur 12 starfsmönnum stofnunarinnar en þeim er gert að hafa tekið þátt í árásum Hamas-liða í Ísrael 7. október síðastliðinn.
Í yfirlýsingunni segir Espen að ásakanir Ísraelsstjórnar á hendur starfmönnum Flóttamannahjálparinnar, vera grafalvarlegar og að það þurfi að rannsaka þær gaumgæfilega. Þá segir hann Noreg hafa fordæmt árásirnar 7. október harkalega og að þeir sem beri ábyrgð verði að vera sóttir til saka og að sleppa verði öllum gíslum Hamas undir eins.
„Ástandið á Gaza er hörmulegt,“ skrifar Espen næst og heldur áfram. „80 prósent fólksins á Gaza er á vergangi en mörg þeirra hafa leitað skjóls í yfirfullum skólabyggingum. Þúsundir borgara hafa verið drepnir, þar á meðal börn, meira en 150 starfsmenn UNRWA, sem og kennarar, læknar, blaðamenn og óteljandi fleiri aðilar sem hafa ekkert með stríðið að gera. Það er skortur á bæði mat og vatni og aðgengi að heilbrigðisþjónustu er afar ófullnægjandi. UNRWA er líflína fyrir tæplega 2 milljónir manna á Gaza.“
Espen segir einnig í yfirlýsingunni að Noregur sé stór styrktaraðili til Flóttamannahjálparinnar en að sumar þjóðir hafi nú fryst styrki sína til aðstoðar Palestínumönnum. „Noregur hefur ákveðið að halda áfram að styrkja samtökin. Þó að ég deili áhyggjum af mjög alvarlegum ásökunum á hendur sumum starfsmönnum UNRWA, hvet ég aðra styrkveitendur til að velta fyrir sér víðtækari afleiðingum þess að skera niður fjárframlög til UNRWA á þessum tímum mikilla mannúðarkrísu. Við eigum ekki að beita milljónum manna hóprefsingu.“
Að lokum segir Espen: „Við verðum að greina á milli þess sem einstaklingar kunna að hafa gert og þess sem UNRWA stendur fyrir. UNRWA hefur 30.000 starfsmenn víðs vegar um Jórdaníu, Líbanon, Sýrland, Vesturbakkann, þar á meðal Austur-Jerúsalem og Gaza. 13.000 þeirra vinna á Gaza við að dreifa aðstoð, bjarga mannslífum og tryggja nauðsynlegar þarfir og réttindi íbúa. Íbúar Gaza þurfa á brýnni mannúðaraðstoð að halda og mega ekki gjalda fyrir gjörðir annarra.“