Framtíðarsinninn Ray Kurzweil spáir því að árið 2030 muni vísindin vera á þeim stað að lífslíkur fólks verði auknar um meira en eitt ár á ári hverju. Það myndi þýða, ef við náum að tóra í nokkur ár í viðbót, að við myndum ekki láta lífið af náttúrulegaum orsökum.
Þennan spádóm byggir hann á því að gervigreind muni fyrst ná Turin prófi um árið 2029 og myndi þannig ná greind sem væri til jafns við mannveruna og svo um 15 árum seinna væntir hann þess að mannveran og gervigreindin myndi sameinast og þannig milljarðfalda greind okkar.
Hann vill meina að með þessum tækniframförum getum við þróað agnarsmá vélmenni sem flakka um blóðrásina og lagfæra líkama okkar innan frá. Það þyrftu að verða gríðarlegar tækniframfarir til að sýn Kurwzeil yrði að veruleika.
Þetta hljómar vissulega eins og vísindaskáldskapur en iflscience.com greindi frá því árið 2018 að vísindamenn frá MIT hefðu meðhöndlað heilaæxli með ekki óáþekkri tækni þar sem eindir sem innihéldu tvennskonar lyf var beint að æxlinu. Annarsvegar lyf til að eyðileggja DNA æxlisins og hinsvegar lyf til að sporna við því að æxlið gæti lagfært eyðilegginguna.
Þetta er vissulega bara spádómur og honum ætti að taka sem slíkum.
Það er þó áhugavert, eða í það minnsta ágæt dægradvöl, að líta yfir spádóma Kurzweil. Árið 1990 spáði hann fyrir um það að tölvur myndu sigra stórmeistara í skák fyrir árið 2000, hann sá fyrir snjallsímana, þráðlausu tæknina og útbreiðslu internetsins áður en það varð öllum ljóst.
Árið 2010 komst hann að þeirri niðurstöðu að af 147 spádómum hans á árunum 1990-2010 voru 115 þeirra algerlega réttir, 12 voru réttir í meginatriðum en 3 þeirra algerlega rangir.