Fyrrverandi yfirmaður Mossad, leyniþjónustu Ísraels, hótaði aðalsaksóknara Alþjóða sakamáladómstólsins (ICC) til að reyna að fá stríðsglæparannsókn árið 2021 fellda niður, segir í skýrslu sem The Guardian birti í dag.
Yossi Cohen, fyrrverandi yfirmaður ísraelsku leyniþjónustunnar, Mossad, hótaði þáverandi saksóknara ICC, Fatou Bensouda, á leynilegum fundum, að því er blaðið The Guardian greindi frá í dag. Skýrslan er í samræmi við aðrar sem benda til þess að Ísrael og helstu vestrænu bandamenn þeirra hafi reynt að þrýsta á alþjóðlegar dómsmálastofnanir.
Leynileg tilraun Cohen til að þrýsta á Bensouda átti sér stað á árunum fyrir ákvörðun hennar um að hefja formlega rannsókn á meintum stríðsglæpum og glæpum gegn mannkyni á hernumdum palestínskum svæðum, segir í skýrslunni en þar er vitnað í fjölmarga nafnlausa heimildarmenn.
Í síðustu viku sótti arftaki Bensouda, Karim Khan, um handtökuskipun á hendur Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, á grundvelli rannsóknarinnar sem hófst árið 2021.
Khan tilkynnti að embætti hans hefði „rökstudda ástæðu“ til að ætla að Benjamin Netanyahu forsætisráðherra Ísraels og Yoav Gallant varnarmálaráðherra beri „glæpsamlega ábyrgð“ á „stríðsglæpum og glæpum gegn mannkyni“.
Einn einstaklingur sem var upplýstur um starfsemi Cohen sagði að hann hefði beitt „fyrirlitlegum aðferðum“ gegn Bensouda sem hluta af árangurslausri tilraun til að hræða hana og hafa áhrif á hana.
Samkvæmt heimiildum sem deilt er með embættismönnum ICC er hann sagður hafa sagt henni: „Þú ættir að hjálpa okkur og láta okkur sjá um þig. Þú vilt ekki lenda í hlutum sem gætu truflað öryggi þitt eða fjölskyldu þinnar.“
Khan sótti einnig um handtökuskipanir á hendur þremur leiðtogum Hamas – Yahya Sinwar, Mohammed Diab Ibrahim al-Masri (einnig þekktur sem Deif) og Ismail Haniyeh – fyrir stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyni.
Ísrael er ekki aðili að Alþjóða sakamáladómstólsins og viðurkennir ekki lögsögu þess.
Ísrael hefur einnig verið áskað um þjóðarmorð við Alþjóðadómstólinn (ICJ), æðsta dómstól Sameinuðu þjóðanna, sem, líkt og ICC, hefur aðsetur í Haag.
Sérfræðingar telja að ákærur ICC grafi enn frekar undan lögmæti stríðs Ísraels gegn Gaza og torveldi óvenjulegt samband þeirra við evrópska bandamenn sem eru aðilar að Rómarsamþykktinni. Talið er að Bandaríkin, lykilbandamaður Ísraels, muni verja ísraelsk stjórnvöld fyrir afleiðingum alþjóðalagabrota þeirra.
Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, sagði að aðgerð Khan gegn ísraelskum embættismönnum væri „svívirðileg“. Utanríkisráðherrann Antony Blinken gaf í skyn að Hvíta húsið væri til í að vinna með þingmönnum að lagasetningu til að refsa alþjóðadómstólnum. Nokkrir bandarískir þingmenn hafa einnig hvatt Washington til að beita refsiaðgerðum á hendur ICC eftir beiðni dómstólsins um handtökuskipunina.
Palestínumenn óttast að Ísrael og Bandaríkin muni þrýsta á dómara ICC um að hafna beiðnum Khan.