Miðvikudagur 15. janúar, 2025
7.8 C
Reykjavik

Erna Huld er hrædd og fær martraðir: „Stundum dreymir mig að Talibanar séu að skjóta á mig“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ég er svo hrædd; sérstaklega vegna fjölskyldumeðlima sem eru í Afganistan. Ég fæ stundum martraðir og það er oft sem ég get ekki sofið og stundum dreymir mig að Talibanar séu að skjóta á mig. Og ég er oft með verk í maganum,“ segir Erna Huld Ibrahimsdóttir þegar hún er spurð hvernig henni líði þessa dagana.

 

Ég hef verið í sambandi við fjölskyldu mína í Afganinstan og það eru allir svo hræddir.

Hún er frá Afganistan, hefur búið á Íslandi frá árinu 2010 og er með íslenskan ríkisborgararétt. „Foreldrar mínir, systur mínar og einn bróðir og fjölskyldan hans eru í Afganistan en þrjú systkini mín búa á Íslandi. Ég hef verið í sambandi við fjölskyldu mína í Afganinstan og það eru allir svo hræddir. Systir mín ferðaðist á mótorhjóli í þrjá daga til að komast til Kabúl í þeirri von að geta flogið þaðan til Íslands en hún með vegabréfsáritun til Íslands og stefnir á háskólanám hér. Ein frænka mín reyndi að fara á flugvöllinn í Kabúl. Hún datt í gólfið og það var labbað yfir hana. Bróðir minn sagðist ekki getað tekið þá áhættu foreldra okkar og barna sinna vegna að reyna að fara á flugvöllinn og ég geri ekki neitt nema að bíða hér og fylgjast með,“ segir Erna Huld.Í dag birti visir.is svo þá frétt að Afgönum sé meinað að fara á flugvöllinn í Kabúl og að talsmaður Talibana hafi sagt að öryggi þeirra sem hafa safnast saman fyrir utan flugvöllinn væri tryggt. Sameinuðu þjóðirnar hafa fengið tilkynningar um alvarleg mannréttindabrot í landinu eftir valdatöku Talibana og breska ríkisútvarpið hefur eftir mannréttindastjóra SÞ að fregnir af fjöldaaftökum Talibana séu áreiðanlegar.

Fjölskylda Ernu Huldar tilheyrir sjía múslímum sem eru minnihlutahópur í landinu. Þá tilheyra þau þjóðarbroti Hazara/Sayed og árið 2001 þegar Talibanar tóku yfir Bamiyan- og Yakawlang-héruð í eitt skiptið drápu þeir yfir 200 úr þeim hópi. Þar af voru fjórir móðurbræður Ernu Huldar.

Faðir Ernu Huldar  hefur unnið hjá kvennaathvarfi sem fjármagnað var af UNWomen og GIZ. Þrátt fyrir yfirlýsingar Talibana um að konum verði ekki varanlega meinað að vinna þá vilja þeir að konur haldi sig heima. Hér fyrir neðan er hluti þeirra reglna sem Talibanar hafa sett varðandi konur en þeir fara eftir sharíalögum.

 

- Auglýsing -

* Algert bann við því að konur séu útivinnandi. Einungis nokkrar sem starfa sem læknar og hjúkrunarfræðingar mega vinna á nokkrum sjúkrahúsum í Kabúl

* Algert bann við því að konur geti gert nokkurn skapaðan hlut fjarri heimilum sínum ef þær eru ekki í fylgd „mahram“ ( svo sem föður, bróður eða eiginmanns)

* Algert bann við því að karlkyns læknar sinni konum

- Auglýsing -

* Konur mega ekki stunda nám í skólum, háskólum (Talíbanar hafa breytt stúlknaskólum í tilbeiðslustaði)

* Konur eiga að klæðast búrkum sem hylja þær frá toppi til táar

* Konur mega ekki nota snyrtivörur (mörg dæmi eru um að fingur hafi verið hoggnir af konum sem hafa verið með lakkaðar neglur)

* Konur mega ekki tala við eða heilsa körlum sem ekki eru „mahram“

* Konur mega ekki hlæja hátt eða syngja

* Konur mega ekki ganga í skóm með háum hælum sem gæti heyrst í (karlmenn eiga ekki að heyra í konum þegar þær ganga)

* Konur mega ekki fara í leigubíl án „mahram“

* Konur mega ekki stunda íþróttir eða fara á íþróttaleikvanga

* Konur mega ekki hjóla

* Það er bannað að birta myndir af konum. Þær eru einfaldlega ekki til!

 

Konur mega ekki hlæja hátt eða syngja

 

Von á allt að 120 Afgönum

Talibönum var komið frá völdum í Afganistan eftir innrás alþjóðahers í landið árið 2001 eftir fimm ára valdatíð og segir Erna Huld að núna eftir innrás þeirra fyrr í þessum mánuði þá séu Afganir í raun á byrjunarreit. Hún segir að sem NATO-þjóð þurfi Íslendingar að axla ábyrgð. „Það hafa orðið miklar breytingar í Afganistan síðastliðin 20 ár svo sem varðandi réttindi kvenna og menntun og það þarf að vernda þetta. Við vitum ekki hvernig Talibanar ætla að stjórna og þess vegna þurfa NATO-þjóðir sérstaklega að taka ábyrgð á konum og minnihlutahópum.“

 

Við vitum ekki hvernig Talibanar ætla að stjórna

Tilkynnt hefur verið að Ísland taki á móti allt að 120 flóttamönnum frá Afganistan og er jafnvel búist við að þeir verði fleiri. Fólk sem hefur starfað með NATO verður sérstaklega í forgangi, fólk sem hefur verið í jafnféttisskólanum hér á landi og loks ættingjar Afgana sem búa hér á landi. Erna Huld segist vonast til þess að ættingjar sínir verði í þessum hópi og nefnir að þeir séu í sérstakri hættu í Afganistan þar sem þeir séu þekktir fyrir frjálslynd viðhorf.

Erna Huld fæddist í Íran og flutti með fjölskyldu sinni til Afganistan þegar hún var 12 ára. Hún var 13 ára þegar Talibanar tóku völdin í eitt skiptið.

„Þegar Talibanar frömdu fjöldamorð á hazörum í Yakawlang í janúar 2001 bjuggum við í Pakistan. „Þetta var eitt erfiðasta tímabil lífs míns. Við vissum af fjöldamorðunum en höfðum enga leið til að vita hverjir hefðu verið myrtir. Við lágum á bæn og vonuðum að ættingjar okkar væru óhultir og biðum eftir lista yfir fórnarlömbin frá UNAMA. Þá kom í ljós að móðir mín hafði orðið fyrir miklum missi en þrír bræður hennar, börn þeirra og frændur hennar, voru á meðal þeirra sem létu lífið. Þetta var svo mikil sorg, sérstaklega að horfa upp á mömmu í þessum aðstæðum.“

 

Ertu Talibani?

Faðir Ernu Huldar ákvað að hún og bróðir hennar skyldu flytjast til Pakistan þegar hún var 16 ára til að þau yrðu öruggari; önnur systkini hennar voru yngri og bjuggum áfram hjá foreldrum sínum. Hún flutti svo aftur til Afganistan þegar hún var að verða 18 ára, fór að læra ensku í háskólanum í Kabúl í eitt ár og hóf svo nám í stjórnmálfræði og lögfræði og útskrifaðist sem stjórnmálafræðingur árið 2007. Hún starfaði síðan í nokkur ár á vegum SÞ og bar ábyrgð á kynjafræði við háskólann í Kabúl. Hún var 27 ára þegar hún flutti til Íslands árið 2010 til að hefja nám í kynjafræði við Jafnréttisskóla Sameinuðu þjóðanna (UN Guest program) sem er hluti af GRÓ – þekkingarmiðstöð um þróunarsamvinnu ásamt Jarðhitaskólanum, Sjávarútvegsskólanum og Landgræðsluskólanum, en hún starfar undir merkjum Mennta-, vísinda- og menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNESCO. Hún ílentist og er orðin íslenskur ríkisborgari og rekur túlkaþjónustuna Fatimu þar sem boðið er upp á túlkaþjónustu meðal annars á persnesku/darí, kúrdísku, úrdú, arabísku, kínversku og pólsku. Þá er boðið upp á fyrirlestra um ýmis menningarleg og félagsleg viðfangsefni. Á meðal fyrirlestra má nefna „konur og kynferði í Íslam“, „yfirlit um sögu, menningu og tungumál Afganistan“ og „innflytjndur og vinnumarkaðurinn á Íslandi.“ Hælisleitendur eru á meðal þeirra sem nýta sér þjónustu Fatimu.

„Það er ýmislegt í menningu múslíma sem þarf að taka tillit til. Það þarf að byggja brú á milli menninga og við þurfum að tala um þetta. Íslendingar þurfa líka að læra um aðra menningu.“

Það hefur þegar komið fram að þrjú systkini Ernu Huldar búa hér á landi. Einn bróðir hennar stefnir á meistaranám í tölvunarfræði, annar fór í meistaranám í verkfræði og systir hennar er að hefja meistaranám í leikskólakennarafræðum.

Erna Huld er spurð út í fordóma í sinn garð hér á landi. Hún segist hafa upplifað fordóma og nefnir dæmi. „Ég fór einu sinni í sund og maður spurði mig hvaðan ég væri. Þegar ég sagðist vera frá Afganistan spurði hann hvort ég væri Talibani. Ég brást þannig við að hann sagðist hafa verið að djóka en ég tók þessu ekki sem djóki. Talibanar hafa drepið stóran hluta af fólki mínu. Þetta er ekki fyndið.“

 

 

 

 

 

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -