Sunnudagur 27. október, 2024
1.1 C
Reykjavik

Ertu ekki að koma?

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Kynlíf getur verið, og á að vera, skemmtilegt en það getur verið erfitt að njóta þess. Heilinn gætir þess nefnilega oft að við gleymum okkur ekki í gleðinni og njótum þess að láta hinn aðilann gæla við okkur og koma okkur í hæstu hæðir. Þá væri nú gott að hafa slökkvara í heilabúinu.

 

Einhvers staðar las ég að karlar geti slökkt á heilanum í sér eins og ekkert sé, jafnvel líka þegar þeir stundi kynlíf, en að við konur ættum hins vegar ekki jafnauðvelt með það. Ég hef staðið mig að því að muna eftir því í miðjum klíðum að heyra þvottavélina klára vindingarprógrammið frammi í þvottahúsi og hugsa með mér að ég verði að hengja upp þvottinn áður en ég fari að sofa svo það komi ekki vond lykt í hann yfir nóttina. Og áður en ég veit af er bólfélaginn búinn að fá það en ég ekki.

Kynköld kærasta

„Þú ert nú bara eitthvað kynköld,“ sagði einn af mínum fyrrverandi eitt kvöldið eftir að við höfðum stundað kynlíf. Hann sagði það reyndar ekki upp úr þurru heldur romsaði hann þessu út úr sér eftir að ég hafði ákveðið að segja honum að ég fengi yfirleitt ekki fullnægingu. Með honum. Ég meira að segja gerði næstum því gott úr þessu, því ég sagði yfirleitt en hefði sannleikanum samkvæmt átt að segja aldrei. En þar með var málið bara útrætt og engin þörf á að pæla í því hvort ég væri að fá eitthvað út úr kynlífinu. Ég man að ég hálfskammaðist mín líka, eins og það væri eitthvað að mér. Ég væri pínulítið gölluð. Auðvitað fengju allar konur sturlaða fullnægingu í hvert sinn. Með honum.

En svo eltist ég nú og þroskaðist. Ég las mér heilmikið til og pældi helling í því af hverju ég ætti svona erfitt með að fá fullnægingu. Meðal annars las ég bókina The Female Brain (sem gæti útlagst sem Kvenmannsheilinn á íslensku) eftir Dr. Louanne Brizendine, þar sem segir meðal annars að kynferðisleg örvun kvenna hefjist ekki fyrr en heilinn hafi slökkt á sér, þ.e.a.s. svæðið í heilanum sem stjórni ótta og kvíða. Áður en það gerist geti alls kyns áhyggjur, meðal annars af krökkunum, dagskránni, kvöldmatnum og fleiru, haft áhrif á það hvernig gengur að ná fullnægingu. Og hver kannast ekki við þetta? Eina stundina fer fiðringur um mann allan en þá næstu er maður farinn að hugsa um það hvort maður hafi örugglega slökkt á eldavélinni.

Heilabú og tilfinningaflækjur

- Auglýsing -

Málið er nefnilega þetta með heilann í okkur konum. Við virðumst eiga erfitt með að slökkva alveg á honum og njóta augnabliksins. Við erum svo samviskusamar; alltaf að hugsa um það sem þurfi að gera á morgun og hinn og hinn. Og hvort sé búið að ganga frá hinu og þessu. En það er ekki bara samviskusemin sem veldur því að við konur getum átt í mesta basli með að njóta kynlífsins og/eða fá fullnægingu. Það getur líka verið um tilfinningalegar ástæður að ræða.

Við konur erum tilfinningaverur, ég held það þýði ekkert fyrir okkur að ætla að þræta fyrir það. Og tilfinningar hafa mikil áhrif á nánd og það hvernig okkur líður gagnvart maka okkar. Ég var til dæmis ekkert yfir mig spennt að stökkva í rúmið með fyrrverandi manninum mínum eftir rifrildi (nei, ekki heldur fyrir svokallað makeup-sex) því ég átti mjög erfitt með að gleyma bara einn tveir og þrír að við hefðum verið að rífast og að ýmis orð hefðu verið látin falla í hita leiksins. Hann átti hins vegar mun auðveldara með það. Kannski út af slökkvaranum í heilabúinu hans, sem vantaði í mig.

„Málið er nefnilega þetta með heilann í okkur konum. Við virðumst eiga erfitt með að slökkva alveg á honum og njóta augnabliksins.“

Það segir sig samt líklega sjálft að þegar annar aðilinn, konan oftast nær, er óöruggur í sambandinu eða líður eitthvað illa er erfiðara fyrir hann að fá fullnægingu. Góð samskipti eru því stór þáttur í fullnægingunni. Og að maður geti rætt opinskátt um tilfinningar sínar og upplifun. Án þess að eiga á hættu að vera kallaður kynkaldur eða eitthvað þaðan af verra.

- Auglýsing -

Af hverju að skammast sín?

Ég ræddi þetta við vinkonur mínar um daginn og það var ótrúlegt hversu margar okkar höfðu sömu að segja. Við ættum erfitt með að aftengja okkur hversdagsleikanum og því sem þyrfti að gera og svo framvegis. En nokkrar töluðu líka um skömmina sem þær finndu fyrir í kynlífi. Eða eftir kynlífið. Þrátt fyrir að við séum allar komnar á fertugsaldurinn, og sumar jafnvel á fimmtudagsaldurinn, voru margar okkar sammála um að við gætum enn þá heyrt einhverja innri rödd frá því í æsku segja okkur að það væri ógeðslegt að stunda kynlíf. Og hvað þá sjálfsfróun, en það er nú efni í annan pistil.

Maya Melamed hefur skrifað um akkúrat þetta; skömmina sem sérstaklega konur finna fyrir þegar kemur að kynlífi. Hún segir að ein ástæða þess að hugur okkar reiki annað í kynmökum sé meðal annars sú að bæði karlar og konur hafi fengið ýmsar ranghugmyndir um kynlíf í gegnum tíðina. En konur hafi frekar þá hugsun í undirmeðvitundinni að kynlíf sé slæmt, sóðalegt eða hættulegt. Heilinn reyni þess vegna að taka völdin og minna okkur á að við ættum nú ekki að vera að standa í þessum ósóma. Þess vegna leyfi hann okkur ekki að gleyma okkur alveg og njóta þess að ná hæstu hæðum án þess að muna eftir því að það þurfi að skutla yngsta barninu í fiðlutíma næsta dag. Hann vilji vera viss um að við séum ekki andlega fjarverandi, því kynlíf er ó-ó og sóðalegt og allt það, munið´i.

Melamed tekur þó fram að þetta eigi ekki við um allar konur. Sumar konur hugsi ekki um kynlíf sem eitthvað sóðalegt heldur eitthvað geggjað sem þær njóti í botn. En vandamálið sé hins vegar að margar konur njóti kynlífs til að byrja með, þegar sambandið er nýtt og spennandi, en hætti því svo eftir því sem líður á. Og því miður eigi margar konur erfitt með að segja frá því að þær séu hættar að fá fullnægingu, eins og þær fengu næstum í hvert sinn í byrjun sambandsins. Þeim finnist vandræðalegt að viðurkenna, jafnvel fyrir sjálfum sér, að þær séu ófullnægðar og óánægðar.

En ef ekki er rætt um vandann, leysist hann ekki. Og leysist hann ekki er hætt við að hann verði stærri og meiri eftir því sem lengra líður. Kynlíf getur nefnilega verið óskaplega skemmtilegt. Og auðvitað er skemmtilegast ef allir þátttakendur njóta sín og hafa jafngaman. Og þetta með skömmina … Við þurfum að fleygja henni á haugana. Kynlíf er ekkert til að skammast sín fyrir. Án þess sæti ég ekki hér að skrifa þessar línur. Og án þess sætir þú ekki hér að lesa þær.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -