Fimmtudagur 2. janúar, 2025
0.8 C
Reykjavik

„Erum í þessu til að koma að samfélagslegu gagni“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Alls hafa 1.917 sjálfboðaliðar björgunarsveitanna farið í 321 útkall frá 9. desember, þegar mikil sprengilægð gekk yfir landið. Þetta fólk, sem klæðir sig út þegar við hin höldum okkur innandyra, hefur á þessum rúma mánuði verið 35.000 klukkustundir í útköllum. Það gera 18 klukkustundir á hvern þeirra. Björgunarsveitirnar hafa leyst meira en 2.100 verkefni á þessum tíma. Á sama tíma hefur Rauði krossinn hjálpað ríflega 1.500 manns í neyð; ýmist í formi opnunar fjöldahjálparstöðva eða áfallahjálpar. „Þessar sveitir eru tilbúnar í allt og samfélagið stólar á það,“ segir deildarstjóri hjá Almannavörnum.

Í þessum tölum er um að ræða stór og smá útköll; allt frá minniháttar vegaaðstoð yfir í stór og flókin verkefni. Guðbrandur Örn Arnarson, verkefnastjóri aðgerðamála hjá Landsbjörgu, segir að langstærsti hluti þessara verkefna snúi að samborgurum og innviðum íslensks samfélags. „Þetta er óvenjulega mikið,“ segir hann um annríkið að undanförnu. „Þessar gríðarlegu náttúruhamfarir sem urðu á norðanverðu landinu og svo fyrir vestan vega þungt í þessum tölum,“ útskýrir hann.

Guðbrandur bendir á að aðeins séu þarna taldar klukkustundir í útköllum. Ótaldar eru stundir þar sem björgunarfólk dvelji fjarri fjölskyldu, til dæmis yfir nótt, vinnustundir við fjáraflanir, æfingar, viðhald tækja og rekstur sveitanna. „Margir hafa þurft að fara sólarhringum saman. Við erum bara að tala um beint vinnuframlag.“  Hann segir aðspurður að þessi mikla törn, sem hafi að mestu snúist um náttúruhamfarir, hafi sannað að öll umræða um misnotkun einhverra aðila á tíma björgunarsveitanna sé úr lausu lofti gripin. Útköllin í desember og janúar hafi fyrst og fremst snúið að íslensku samfélaginu og innviðum þess. „Við erum í þessu til þess að koma að samfélagslegu gagni.“

Jón Svanberg. Mynd/Landsbjörg

Segja má að törnin hafi hafist 10. desember með einu versta óveðri sem skollið hefur á landinu árum saman. Norðurland varð verst úti en þar varð sums staðar langvarandi rafmagnsleysi og gífurlegt tjón á raflínum og staurum. „Þetta er það langversta sem ég hef séð hér,“ sagði Stefán Vagn Stefánsson, yfirlögregluþjónn á svæðinu, í hádegisfréttum Bylgjunnar 10. desember. Þótt veðurhamurinn fyrir jól hafi verið verstur á Norðurlandi voru fjöldamörg útköll í öðrum landshlutum vegna óveðursins, til dæmis í Vestmannaeyjum.

Veðráttan undanfarnar vikur hefur tekið mikinn toll. Ungur maður lést þegar hann reyndi að losa krapa úr stíflu heimavirkjunar í Eyjafirði í óveðrinu 10. til 12. desember. Maðurinn fannst látinn eftir mikla leit björgunarsveita og Landhelgisgæslu við afar erfiðar aðstæður. Litlu mátti muna að ung stúlka léti lífið þegar snjóflóð féllu á Flateyri á nýju ári. Þar varð mikið eignatjón og samfélagslegur skaði.

Mörg alvarleg slys í janúar

- Auglýsing -

Fjölmörg alvarleg slys hafa orðið í janúar, sem mörg hver má rekja til veðurfars eða vetrarfærðar. Þar á meðal eru tvö rútuslys, banaslys þar sem snjóruðningstæki kom við sögu og árekstur fólksbíla í mikilli hálku, með afdrifaríkum afleiðingum. Þá má rifja upp mikið björgunarafrek við Langjökul í upphafi ársins, þar sem litlu mátti muna að illa færi fyrir stórum hópi erlendra ferðamanna.

„Það hefur nánast allt landið verið undir síðasta einn og hálfa mánuðinn.“

Hörmulegt slys varð að auki í Hafnarfirði á dögunum, þar sem bíll með þremur ungum piltum hafnaði í sjónum. Tveir þeirra voru þungt haldnir, síðast þegar vitað var af. Í mörgum þessara slysa og hörmunga hafa björgunarsveitir eða Rauði krossinn komið að málum.

Um fjögur þúsund manns eru á útkallsskrá hjá björgunarsveitum landsins. Jón Svanberg bendir á að þó að útköllin séu „aðeins“ 165 á umræddu tímabili þá sé fjöldi verkefna í hverju útkalli oft mikill. „Þetta hefur verið gríðarlegt álag og mörg verkefni.“ Hann segir að þótt Norðurland hafi orðið verst úti fyrir jól hafi verið mikið annríki í flestum landshlutum; nú síðast á Vestfjörðum. „Það hefur nánast allt landið verið undir síðasta einn og hálfa mánuðinn.“

- Auglýsing -

Ólíkur styrkur sveitanna

Hver björgunarsveit er sjálfstæð félagslega og fjárhagslega, að sögn Jóns. Sveitirnar eru hins vegar mjög misstórar og aðbúnaður þeirra ólíkur. „Á höfuðborgarsvæðinu hefur verið mikil ásókn í að komast í sveitirnar. En úti á landi, sums staðar, er þetta á herðum sama fólksins árum og jafnvel áratugum saman. Þar er þetta sums staðar gert meira af samfélagslegri ábyrgð en áhuga á útivist. Víða á landsbyggðinni sárvantar hendur,“ segir hann og nefnir sveitir eins og í Árneshreppi á Ströndum eða Öræfum. Þar séu dæmi um mjög fámennar en afar mikilvægar sveitir sem þurfi oft um langan veg að fara í útköll.

„Þessar litlu sveitir skipta lykilmáli. Á Flateyri er til dæmis mjög lítil björgunarsveit en gildi hennar sannaðist heldur betur núna um daginn,“ útskýrir Jón en hann er sjálfur frá Flateyri. Hann vísar þar til snjóflóðanna sem féllu á þorpið með þeim afleiðingum að ung stúlka grófst undir snjó og mikið eignatjón varð í höfninni. Stúlkunni var bjargað af björgunarsveitarmönnum í tæka tíð. „Þorpið getur lokast af svo dögum eða jafnvel vikum skiptir. Það sannaðist um helgina og líka árið 1995 hvað fáar hendur geta komið miklu í verk.“

Björgunarsveitir í óveðursútkalli 10. desembewr 2019. Mynd / Landsbjörg

Selja sjálfum sér flugelda

Jón nefnir að litlar sveitir hafi úr minni fjármunum að spila en þær stærri. Fjármögnun getur verið mjög snúin í litlum samfélögum. „Allra minnstu sveitirnar nánast fjármagna sig með því að selja sjálfum sér flugelda,“ útskýrir hann. Til að mæta brýnni þörf minni sveitanna til að koma sér upp góðri aðstöðu og endurnýja tæki, hefur Landsbjörg undanfarin ár safnað „bakvörðum“. Þar sé um að ræða sameiginlega fjáröflun Landsbjargar en peningarnir renna eftir sérstöku tekjuúthlutunarkerfi til þeirra slysavarnarsveita sem helst þurfa á stuðningi að halda.

„Bakverðir eru öruggasti tekjupósturinn. Þar er um að ræða jafnar tekjur allt árið.“

Bakverðir á Íslandi eru núna um 19 þúsund en fyrir tilstilli þeirra renna um 230 milljónir til þeirra sveita sem helst þurfa á fjárstuðningi að halda. „Hver einasta króna sem kemur inn í hreinar tekjur af þessu rennur beint til slysavarnardeildanna,“ segir Jón. Þetta séu tryggustu tekjur björgunarsveitanna. Flugeldasalan, stærsta fjáröflunin á hverju ári, geti verið brothætt. Það þurfi ekki annað en slæmt veður á gamlársdag, milli klukkan 10 og 16, til að salan verði verulega skert. „Bakverðir eru öruggasti tekjupósturinn. Þar er um að ræða jafnar tekjur allt árið.“

30 ára vinna

Eins og áður segir fóru björgunarsveitir landsins í 165 útköll og sinntu hátt í 1.500 verkefnum frá 9. desember til 8. janúar. Þar liggja um 22.200 vinnustundir, að sögn Jóns. Hann bendir á að fyrir nokkrum árum hafi verið reiknað út að á baki hverrar stundar í útkalli liggi 12 tímar í fjáraflanir, viðhald tækja, menntun og þjálfun fólksins. Miðað við þá reikniformúlu liggja 264 þúsund vinnustundir að baki útköllunum frá 9. desember til 8. janúar. Það jafngildir samfelldri vinnu einstaklings í 30 ár.

Lestu umfjöllunina í heild í nýjasta tölublaði Mannlífs.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -