157 lög voru send inn í íslensku Söngvakeppnina í ár, sem er 25 lögum fleiri en í fyrra. Sjö manna valnefnd mun velja tíu lög sem verða kynnt fyrir þjóðinni í janúar auk höfunda laganna.
„Þetta er um það bil tuttugu prósenta aukning á innsendum lögum miðað við í fyrra. Það er auðvelt að leiða líkum að því að þátttaka Hatara og gott gengi hafi ýtt við lagahöfundum í landinu,“ segir Björg Magnúsdóttir, sem situr í framkvæmdastjórn keppninnar. RÚV greindi frá.
Allir gátu sent inn lög. Að auki bað RÚV vinsæla lagahöfunda um að semja hluta keppnislaganna. Í valnefndinni eru fulltrúar frá RÚV, Félagi íslenskra hljómlistamanna og Félagi tónskálda- og textahöfunda.
„Allir senda lög inn undir dulnefni. Nú tekur valnefnd til starfa og það er bara fullt af mikkum, músum og andrésínum – þannig að þau vita ekki hverjir eru á bak við hvaða lög,“ segir Björg.
Holland sigraði keppnina í ár.
Undankeppnir Söngvakeppninnar fara fram 8. og 15. febrúar í Háskólabíói og úrslitin ráðast 29. febrúar í Laugardalshöll. Sigurlagið verður fulltrúi Íslands í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, í Rotterdam í Hollandi í maí á næsta ári.
Hatari endaði í 10. sæti í Tel Aviv í vor, Samband evrópskra sjónvarpsstöðva sektaði RÚV um 5000 evrur eða tæplega 700.000 kr. fyrir mótmæli Hatara þegarhljómsveitin drí upp borða með fánalitum Palestínu.
„En við reiknum ekki með að þetta hafi áhrif á keppnina og hversu hún vegleg hún verður. Þannig að nei við reiknum ekki með því að þetta hafi áhrif á næstu keppni,“ segir Björg.
Undankeppnir Eurovision fara fram 12. og 14. maí 2020 í Rotterdam í Hollandi og úrslitakeppnin 16. maí.