Eva Joly, rannsóknardómari og Evrópuþingkona, hefur hlotið Anderson-Lucas-Norman verðlaunin fyrir afrek sín í baráttu gegn spillingu. Hún hefur barist gegn hæstu valdastigum í viðskiptum og pólitík. Tax Justice Network greinir frá.
Eitt eftirminnilegasta mál Joly er rannsókn hennar á fjársvikum franska olíufyrirtækisins Elf Aquitaine. Fyrirtækið var þá í eigu franska ríkisins. The Guardian lýsti því sem „stærsta spillingarmáli í Evrópu eftir síðari heimsstyrjöldina.” Þrátt fyrir morðhótanir hélt Joly áfram með rannsóknina. Hún afhjúpaði þónokkur svik sem leiddu til sakfellingu tugi einstaklinga sem voru tengdir olíufyrirtækinu.
Joly rannsakaði einnig Bernard Tapie, fyrrverandi ráðherra þéttbýlismála í Frakklandi, fyrir spillingu. Rannsóknin leiddi til handtöku Tapie.
Tók upp hanskann fyrir íslenskan almenning í Icesave-málinu
Joly hefur tekið þátt í mörgum alþjóðlegum verkefnum og hefur meðal annars ráðlagt ríkisstjórn Íslands í rannsóknum á skatt- og fjársvikum hérlendis. Hún tók upp hanskann fyrir íslenskan almenning í Icesave málinu eftir hrun. Í viðtali við hollenska blaðið Nrc Handelsblad vakti hún athygli á því að bankarnir, sem nánast stefndu Íslandi í þrot, hafi allir verið í einkaeigu. Meirihluti íslensku þjóðarinnar hafi ekki komið þar nærri. Hins vegar séu skuldir bankanna nú orðnar að skuldum ríkisins og hafi því áhrif á alla. Hún sagði þetta „þjófnað á almannafé.“
Þá sagði hún hollenska eftirlitsaðila hafi verið kærulausir þegar að kom að því að kanna hvort eftirlitsaðilar á Íslandi væru að vinna vinnuna sína varðandi Icesave. Þeir hafi ekki gert það. Hollendingar hafi þá reynt að fela mistök sín með því að vísa til lagalegrar skyldu Íslendinga hvað varðar Icesave-reikningana.
Hún lýsti yfir áhyggjur af fólksflóttanum og biðlaði til Hollendinga að koma til móts við Íslendinga „Fólksflóttinn er byrjaður. Átta þúsund vel menntaðir einstaklingar hafa þegar yfirgefið eyjuna og fleiri munu fylgja í kjölfarið. Það er ekki okkar hagur að ganga nærri Íslandi. Landið á gjöfular náttúruauðlindir og staðsetning þess mikilvæg. Við ættum ekki að kúga þá heldur semja við þá, á mun betri og þroskaðri hátt heldur en hingað til,“ sagði Joly í viðtalinu.