Miðvikudagur 20. nóvember, 2024
-4.3 C
Reykjavik

Eva pissaði á kærastann í svefni: „Klárlega vandræðalegast sem ég hef lent í“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hin síkáta og skemmtilega Eva Ruza er undir Stækkunargleri Mannlífs þessa vikuna.
Eva hefur kitlað hláturtaugar landans undanfarin ár, en hún segist elska að mæta upp á svið í glimmergallanum og skemmta fólki.
Mannlíf komst að því að Eva er ekki háskólagengin, móður hennar til mikillar mæðu, hún er dugleg að setja sér markmið og segist vera að lifa drauminn.

Fjölskylduhagir? Er gift sætasta Sigga landsins, þó víða væri leitað og með honum á ég sætustu börn í heimi, Marinu Mist og Stanko Blæ. Kalt mat og endurspeglar 100% mat allra annara 😊

Menntun/atvinna? Mömmu minni til mikilla vonbrigða, þá er ég EKKI háskólagengin, en kláraði nú samt menntaskólann með stæl. Í dag starfa ég í brönsum sem enginn háskóli hefði geta kennt mér á, þannig að mamma er búin að sætta sig við þetta – held ég. Ég starfa á daginn við hlið mömmu í blómabúðinni Ísblóm…hugsaði með mér að ég þyrfti allavega að halda henni félagsskap fyrst að ég fór ekki í háskóla. 

Ég stýri einnig virðulegum fréttatíma á K100 sem heitir ,, Stjörnufréttir með Evu Ruzu“, en þar segi ég fólki frá öllu því helsta sem gerist i Hollywood. Einnig dett ég annað slagið í útvarpskonusætið, og elska það. 

Listinn heldur áfram, því ég hendi mér svo í glimmerdressin og spranga upp á svið og skemmti fólki á kvöldin, hvort sem það er sem veislustjóri, kynnir eða bingóstjóri. Ég sigldi inn í skemmtibransann árið 2015 og hef ekki yfirgefið hann síðan. Ég elska að skemmta fólki, fá orkuna úr salnum og hlæja með fólkinu. 

- Auglýsing -

Uppáhalds sjónvarpsefni? Ég horfi bara á virðulegt sjónvarpsefni. Þá er ég að tala um Love Island, Bachelor in Paradise og þess háttar. Eitthvað svona sem skilur smá eftir hjá manni😉  En ég er reyndar mikill sjónvarpsfíkill og elska ekkert meira en að glápa á sjónvarp á kvöldin. 

Leikari? Ryan Reynolds er sá fyrsti sem poppar upp. Elska húmorinn hans og galsann í honum. 

Rithöfundur? Til dæmis Ricky Martin, Kris Jenner og David Beckham…má segja svoleiðis rithöfunda? Ég er mest fyrir að sökkva mér ofan í ævisögur fræga fólksins og lesa um ævintýri þeirra og líf. 

- Auglýsing -

Bók eða bíó? Alltaf bíó. Við fjölskyldan eeeelskum mjög mikið að fara í bíó saman og gleyma okkur í tvo klukkutíma. Hef alltaf verið mikil bíómanneskja.

Besti matur? Erfið spurning, en ég elska heimagrillaða pizzu. Ég er orðin asskoti klár að grilla pizzur. Samt mjög stutt síðan ég brenndi eina…en það var Sigga Gunnars að kenna. Hann hringdi akkúrat þegar ég var að grilla og ég steingleymdi mér í símtalinu. Ef enginn truflar mig, þá er ég rosa góð að grilla pizzu.

Kók eða Pepsí? Drekk hvorugt. Er almennt lítið fyrir sykrað gos, en er mikil sódavatnsskvísa

Fallegasti staðurinn? Króatía, heimalandið hans pabba, og Slóvenía. Á mjög sterkar taugar þangað og það er sama hvert þú ferð þar, paradís á jörð.

Hvað er skemmtilegt? Að ferðast með Sigga mínum og börnum. Skemmtilegustu minningarnar eigum við saman úr ferðalögum og þær minningar eru dýrmætar.

Hvað er leiðinlegt? Guð minn góður- þvottahúsið frá A-Ö. Eitt það leiðinlegasta sem ég geri á heimilinu er að þvo þvott og brjóta saman. Læt mig samt hafa það og hafa  ,,Hæ Hæ“ bræður, Helgi og Hjálmar Örn vinur minn oft hjálpað mér í gegnum þá krísu.

Hvaða flokkur? Úff, ég er rosa lítið inn í pólitík, en gef Samfylkingunni atkvæðið mitt þar sem Sólveig vinkona mín er flottasta pólitíkusakona sem ég þekki. Hún verður líka ánægð með að ég svari þessari spurningu með öðru en ,,pass“

Hvaða skemmtistaður? Er búið að loka Sportkaffi ? 

Kostir? Ég er hress og glaðlynd að eðlisfari og samkvæmt áreiðanlegum heimildum fjölskyldunnar að þá er vist erfitt að reiðast mér. Sumir myndu kalla það kost, en þeim finnst það galli. Er svo mikill hvolpur. Rosa dúlla, enginn getur verið reiður við hvolpa. Ég gef þeim reyndar sjaldan ástæðu til að reiðast mér…held ég. 

Lestir? Ég gleymi yfirleitt alltaf að hringja tilbaka í fólk. Mamma getur alveg orðið vitlaus á mér, en ég er fljót að smjaðra mig tilbaka. Á það til að vera utan við mig líka ef það er mikið að gera hjá mér. 

Hver er fyndinn? Ég mundi aaaaaldrei nenna að vera gift Sigga ef hann væri ekki fyndinn. Hjálmar Örn, einn af mínum bestu vinum er ein fyndnasta mannvera sem ég hef kynnst, og það mætti segja að Auður Ósk vinkona mín, sé kvenkynsútgáfan af Hjálmari. Eva Laufey kemur eins og þeytispjald inn á þennan lista, því boy hún er fyndnust og hún gleður hjartað mitt. Svo eru mamma og pabbi, systur mínar og vinkonuhópurinn eins og hann leggur sig manneskjur sem hafa gefið mér ófá hlátursköstin. 

Hver er leiðinlegur? Ég hef lagt það í vana minn að umkringja mig ekki með leiðinlegu fólki, þannig að ég get samviskusamlega sagt pass við þessari spurningu.

Trúir þú á drauga? Nja, kannski ekki drauga beint, en ég trúi því alveg að það sé eitthvað…

Stærsta augnablikið? Það er án nokkurs vafa þegar tvíburarnir okkar Sigga fæddust fyrir 12 árum. Langþráður draumur og augnablik sem ég mun aldrei gleyma. 

Mestu vonbrigðin? Hmmm, ég er lítið að velta mér upp úr vonbrigðum, og man ekki eftir neinu sérstöku í augnablikinu. Ætli þetta sumarveður á suðvesturhorninu í sumar hafi ekki verið viss vonbrigði. Ég var tilbúin að vera hálfber í allt sumar í sól og sumari. Það gekk ekki upp nema í örfáa daga.

Hver er draumurinn? Mig dreymir alltaf sjónvarpsdraum. Þættirnir mínir Mannlíf komu út í fyrra í Sjónvarpi Símans og ég elskaði að vinna í kringum þá.  Ég geng svo alltaf með einn stóran draum í maganum sem vonandi rætist. En annars er ég að lifa drauminn. Fallegt fjölskyldulíf, góð heilsa, bestu vinir í heimi, fjölbreytt og skapandi vinna. Ég get ekki beðið um mikið meira. 

Mesta afrek sem þú hefur unnið á þessu ári? Að hafa náð að skapa mér hin ýmsu verkefni og gigg þrátt fyrir Covid vesen á flestum bæjum. En fyrirtækin sem ég hef skemmt fyrir hafa átt sinn þátt í þeim afrekum með því að hugsa í lausnum. Annars er ég að undibúa mig fyrir að hlaupa 10 km í Reykjavíkurmaraþoninu- sem verður ekki. En ég ætla að sjálfsögðu að hlaupa þrátt fyrir að ekkert verði af hlaupinu. Ég hleyp fyrir Minningarsjóð Jennýjar Lilju, og geri vonandi litla engilinn á himnum stolta. Minningasjóður Jennýjar Lilju mun í ár styrkja þyrlusveit Landhelgisgæslunnar. Þið finnið mig á hlaupastyrkur.is og ef ég næ að safna og hlaupa þessa 10 km þá verður það klárlega á listanum yfir afrek ársins. Setti 500.000 króna markmið. Dreyma stóra drauma kids. Þeir rætast kannski.

Ertu búin að ná öllum þínum markmiðum? Já blessuð. Ég bý mér til markmið á hverju ári, nokkrum sinnum ár ári. Um leið og ég næ markmiðunum mínum, þá hleð ég í fleiri. Þannig að ætli ég sé ekki í stöðugri vinnu við að ná þeim. Sem er gott. 

Manstu eftir einhverjum brandara? Ekki í augnablikinu, en um leið og ég ýti á send á þessu viðtali þá á mér pottþétt eftir að detta einhver geggjaður í hug.

Vandræðalegasta augnablikið? Þegar ég pissaði á Sigga í svefni þegar við vorum nýbyrjuð saman. Klárlega vandræðalegast sem ég hef lent í…eða ok, eitt af mjög mörgum, en þetta stendur upp úr. Sem betur fer erum við enn saman í dag, 21 ári seinna, þannig að pissið hafði ekki mikil áhrif á ástina.

Sorglegasta stundin? Það er án efa þegar ég missti ömmur mínar og afa, og minn besta vin þegar ég var 9 ára gömul. Þær sorgir hafa mótað mig sem persónu og kenndu mér snemma á lífið.

Mesta gleðin? Börnin mín tvö. Án nokkurs vafa. Gera mig glaða, stolta, meyra, brjálaða og allt þar á milli.

Mikilvægast í lífinu? Fjölskyldan. Ég er mikil fjölskyldumanneskja og sæki mikið í að vera með fólkinu mínu. Þau eru það allra mikilvægasta sem ég á og ég tek þau alls ekki sem gefnum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -