Eva Ruza Miljevic skemmtikraftur er umsjónarmaður nýrra sjónvarpsþátta sem heita Mannlíf sem sýndir verða í Sjónvarpi Símans eftir áramót. Sagafilm framleiðir.
„Við förum um víðan völl. Ég tek viðtöl við áhugavert fólk, sem er sem sagt svona aðalviðtal í hverjum þætti,“ segir Eva Ruza aðspurð um efnistök þáttanna. „Svo eru aðrir þáttaliðir sem eru fullir af fjöri. Mér verður kennt að elda einföldustu hluti sem vefjast stundum fyrir fólki…sérstaklega mér.“
Fyrstu tökur þáttanna hefjast eftir helgina og er Eva Ruza mjög spennt fyrir verkefninu.
„Algjör draumur að rætast og á sama tíma heiður að fá kallið. Ég er búin að bíða síðan ég var sirka fjögurra ára. En ég trúi á kosmósið og var búin að henda þessu út í það. Það koma á fleygiferð til baka til mín.“
Eva Ruza vill ekkert gefa upp um viðmælendur að svo stöddu.
„Þetta verða þættir fullir af fjöri og áhugaverðu fólki. Við eltum fræga og spyrjum þá spjörunum úr, hendum okkur niður á tísku, perlur sem leynast á landinu, hvort sem það er matur eða drykkir. Þetta eru eiginlega þættir sem taka á öllu mannlífi hvernig sem við lítum á það, á skemmtilegan og líflegan hátt.“
Það er því til mikils að hlakka fyrir aðdáendur skemmtilegs sjónvarpsefnis, Mannlífs og Evu Ruzu.