Eva Ruza er nú þegar farin að flagga nýjum starfstitli, en í fyrirsögn á K100 er hún sögð sjónvarpsstjarna.
Þó titlinum hafi verið þjófstartað, þá á hann engu að síður rétt á sér, því tökur eru að hefjast á nýjum sjónvarpsþáttum fyrir Mannlíf sem Eva stýrir. Verða þeir sýndir í Sjónvarpi Símans eftir áramót, í febrúar.
Eva mætti í morgun í spjall í Ísland vaknar og ræddi nýja verkefnið þar. „Ertu að fara að segja stjörnufréttir um sjálfa þig?,“ spurði Kristín Sif, sem Eva svaraði með að það yrði geggjaður þáttur.
„Það er mikið að gera á öllum vígstöðvum hjá mér,“ sagði Eva. „Snillingarnir hjá Sagafilm eru að leiða mig í gegnum þetta allt saman. Þættirnir eru unnir í samstarfi við Mannlif.is, rithöfundana þar [innskot blaðamanns: blaðamennina] og byggjast svona upp á Mannlíf blaðinu, þetta á að vera magasínþáttur með Evu Ruzu twisti.“
Það verður fjölbreytt efni í hverjum þætti. „Jón þú vilt ekki missa af einum þætti, ekki einum,“ sagði Eva þegar Jón Axel Ólafsson spurði hvort hann gæti bara droppað inn í hvaða þátt sem er.
Aðspurð um efnistök var Eva næstum þögul sem gröfin, en lofaði hún að koma aftur í Ísland vaknar að tökum loknum til að gefa efnistök þáttana betur upp.
„Ég fæ borgað 17 milljónir það get ég sagt ykkur, hvorki meira né minna eftir skatt! Ætli skatturinn sé nokkuð að hlusta á okkur?,“ sagði Eva í gríni og hlær, sem lét þó undan og sagði einn viðmælenda vera mann sem sneri lífi sínu í kross og gerðist þyrluflugmaður.
Fylgstu með helgarblaði Mannlíf alla föstudaga, vefnum man.is og sjónvarpsþáttunum Mannlíf sem koma í sýningar í febrúar.
Horfa má á viðtalið við Evu í heild sinni hér.