Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðismanna í borginni, segist vera hættur við að bjóða sig fram á ný í oddvitasæti Sjálfstæðisflokks í borginni. Ástæðuna segir hann vera persónulega.
Þetta kemur fram í tilkynningu sem Eyþór setti á Facebook síðu sína í gærkvöld.
„Ég hef ákveðið að gefa ekki kost á mér á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórnarkosningunum í vor.
Ég mun að sjálfsögðu gegna skyldum mínum út kjörtímabilið og láta síðan af þátttöku í stjórnmálum að sinni.“
Eyþór segist þó viss um að Sjálfstæðisflokkurinn muni vinna góðan sigur í vor og óttist hann ekki niðurstöður prófkjörs. Kosningabaráttan sem framundan sé kalli á að allt annað víki og hafi hann því ákveðið að hann þurfi meiri tíma til þess að sinna sér og sínum.
Ég hef einfaldlega komist að þeirri niðurstöðu að ég þurfi og vilji meiri tíma til að sinna mér og mínu, heimili og hugðarefnum. Nú er það annarra að taka við keflinu í því boðhlaupi sem pólitíkin er.
Að lokum þakkar Eyþór fyrir samstarf og segist þakklátur.
„Ég vil þakka öllum þeim sem hafa verið mér samferða á þessari pólitísku vegferð í borginni síðustu fjögur árin, bæði liðsmönnum og mótherjum. Sérstaklega þakka ég auðvitað öllum þeim sem hafa stutt mig dyggilega með ráðum og dáð. Því fólki verð ég ævarandi þakklátur.
Ég óska Sjálfstæðisflokknum velfarnaðar í komandi kosningum og ég mun leggja mitt af mörkum til að vinna Sjálfstæðisflokknum brautargengi í vor.“