Fari svo að útlendingafrumvarp Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra verði samþykkt munu umsækjendur um alþjóðlega vernd verða réttindalausir hér á landi aðeins 30 dögum eftir að umsókn þeirra er synjað.
Frumvarp Jóns var birt á vef Alþingis í dag og í því er lagt til að útlendingur, sem hefur fengið synjun á umsókn um vernd tapi réttindum sínum ef hann hefur ekki yfirgefið Ísland 30 dögum eftir synjun.
Í frumvarpi Jóns segir að ætlunin sé að sporna við því að þessir einstaklingar geti haldið áfram að fá þjónustu; jafnvel árum saman eftir að þeim hefur verið vísað úr land, það er ef stjórnvöldum gengur illa að reka þá úr landi.
Verði frumvarp Jóns samþykkt mun það þýða að eftir þessa 30 daga eiga umsækjendur um vernd ekki rétt á að leita sér heilbrigðisþjónustu – eða ganga í skóla.
Verður þó ekki heimilt að fella niður réttindi barna, foreldra eða umsjónarmanna þeirra; barnshafandi kvenna, eða fatlaðra einstaklinga sem eru með langvarandi stuðningsþarfir.
Einnig er lagt til að réttindi ríkisborgara EES og EFTA-ríkja, eða þeirra sem koma frá landi sem er á lista Útlendingastofnunnar yfir örugg upprunaríki, falli niður um leið og umsókn þeirra er hafnað.
Tilgangurinn er að koma í veg fyrir misnotkun á kerfinu, en Jón dómsmálaráðherra hefur talað mikið um að misnotkun sé á alltof algeng í of opnu kerfi sem við Íslendingar höfum, að mati hans.
Vert er að geta þess að umsækjandi um alþjóðlega vernd missir þá stöðu um leið og endanleg niðurstaða er komin í máli hans; strax eftir það er hann flokkaður sem útlendingur.
Muni fólk sækja aftur um alþjóðlega vernd eftir synjun fær það efnislega umfjöllun ef nýjar upplýsingar liggja fyrir sem auka líkur á að fallist verði á umsóknina.
Þá er að finna í frumvarpi Jóns að kærunefnd úrskurðarmála muni ekki þurfa að úrskurða í kærumálum vegna endurtekinna umsókna.
Samkvæmt frumvarpinu fær lögregla heimild til að afla vottorða frá heilbrigðisyfirvöldum um líkamlegt og andlegt atgervi fólks sem synjað hefur verið um alþjóðlega vernd, svo hægt sé að vísa því úr landi.