Fræðslustuttmyndin Fáðu já- stuttmynd um kynlíf og ofbeldi var frumsýnd á Íslandi í janúar árið 2013 og vakti mikla athygli og umræður. Myndin var frumsýnd sama dag í öllum grunnskólum landsins og mörgum framhaldsskólum að auki og í framhaldinu skapaðist mikil og góð samfélagsumræða um mikilvægi samþykkis í samskiptum, ekki síst kynferðislegum. Myndin og kennsluefni henni tengt hefur verið nýtt til kennslu í skólum á Íslandi síðan enda sýndu kannanir sem voru gerðar stuttu eftir að myndin kom út að hún hafði jákvæð áhrif á viðhorf markhópsins sem voru unglingar á fimmtánda og sextánda ári til kynlífs og þess að setja mörk. Myndin var textuð á fimm tungumál og vakti athygli út fyrir landsteinana.
Hún hefur farið víða og verið nýtt við ýmis tækifæri og fyrir stuttu barst aðstandendum myndarinnar tölvupóstur frá Slóveníu þar sem Fáðu já og ítarefni sem tengist henni hefur verið nýtt til að mennta unglingsdrengi um kynlíf, samþykki og klám, eins og kemur fram í tilkynningu frá aðstandendum myndarinnar.
Niðurstöðurnar voru vægast sagt magnaðar!! 806 drengir í sjö skólum í Slóveníu hlutu fræðsluna. Í upphafi hennar voru þeir spurðir um viðhorf sín og þá sögðu 49% drengjanna að það væri skylda stúlkna og kvenna að standa undir væntingum karla, óháð því hvað þær sjálfar vilja. Eftir að hafa horft á Fáðu já og tekið þátt í umræðum um efni myndarinnar varð viðsnúningur á viðhorfi drengjanna og 96% sögðust ósammála því að konur og stúlkur þyrftu að standa undir væntingum karla. Í upphafi fræðslutímans lýstu margir drengjanna því viðhorfi að stúlka sem væri drukkin, eða klædd á kynþokkafullan hátt, væri að leitast eftir kynlífi og það væri ekki ofbeldi að misnota sér ástand stúlku sem þannig væri ástatt um. Eftir að hafa hlotið fræðsluna sögðu hins vegar 98% af drengjunum að það væri mikilvægt að virða mörk þeirra sem þeir stunduðu kynlíf með, og sín eigin mörk. Auk þess sögðu 96% að ef þeir væru óvissir um hvort hin manneskjan vildi stunda kynlíf væri best að spyrja viðkomandi og fá samþykki.
Aðstandendur myndarinnar eru stolt af slóvenskum strákum sem ætla sér að virða stúlkur og mörk þeirra í framtíðinni, auk þess að bera virðingu fyrir sjálfum sér og sínum eigin mörkum. Tölurnar að ofan (sem eru notaðar með góðfúslegu leyfi frá fræðslusamtökunum Ključ Society í Slóveníu) sýni hvers vegna það skiptir máli að fjárfesta í heilbrigðum viðhorfum ungs fólks. Hver einasta króna borgar sig margfalt. Áram veginn til betri heims – og FÁÐU JÁ!