Zainab Safari upplifir sín önnur jól nú á Íslandi. Á jólunum í fyrra voru hún og fjölskylda hennar, móðirin Shahnaz og bróðirinn Amir, í óvissu um hvort þau fengju að vera áfram á Íslandi en fyrir skömmu fengu þau dvalarleyfi og það verður því allt önnur stemning á heimilinu þessi jólin.
Eins og fram kom í viðtali við Zainab í Mannlífi í mars þegar vísa átti fjölskyldunni úr landi, er fjölskyldan frá Afganistan, en Zainab hefur þó aldrei komið þangað, bæði hún og bróðir hennar fæddust í Íran þar sem foreldrar hennar voru flóttafólk.
„Þegar ég fæddist í Íran voru foreldrar mínir á flótta undan stríðinu í Afganistan og þar er enn stríð. Þannig að það er fátt sem bendir til þess að það komi til með að breytast. Við vorum í tólf ár í Íran og Amir bróðir minn er líka fæddur þar en hann er tveimur árum yngri en ég. Lífið í Íran var skelfilegt og þess vegna ákváðu foreldrar mínir að leggja á flótta til Evrópu í von um betra líf og einhverja framtíð, sérstaklega fyrir mig og bróður minn,“ sagði Zainab í fyrrnefndu viðtali. Þar kemur einnig fram að ferðin frá Íran til Evrópu var gríðarlega erfið enda fóru þau fyrst fótgangandi frá Norður-Íran eftir erfiðum vegum og fjalllendi til Tyrklands en þaðan tókst þeim svo að komast með báti til Grikklands. Þegar þangað var loksins komið tók þó ekkert annað við en vonbrigði og skelfilegar aðstæður.
Móðir Zainab flúði með börnin tvö til Íslands en faðir þeirra varð eftir í Grikklandi og Zainab hefur ekki séð hann í eitt og hálft ár. Staðfestingin á dvalarleyfinu kemur þó til með að breyta því.
„Já, pabbi ætlar að heimsækja okkur í eina viku,“ segir hún og ljómar. „Ég hlakka svo mikið til að sjá hann aftur. Það hefur verið erfitt að sjá hann ekki og vita stundum ekki hvar hann er niðurkominn í svona langan tíma. En það er komið leyfi fyrir því að hann megi koma í heimsókn og það er æðislegt.“