Færeyski raftónlistarmaðurinn Janus Rasmussen var að senda frá sér sína fyrstu sólóplötu, Vín. Platan inniheldur fallega og melódíska raftónlist en er með broddi.
„Platan var í vinnslu í eitt og hálft ár á milli þess sem ég var að spila úti með Kiasmos og að plötusnúðast. Það var ofboðslega krefjandi ferli,“ segir Janus og bætir við að hann hafi fengið mikinn stuðning frá æskuvini sínum tónlistarmanninum Sakaris sem býr einnig á Ísland. Janus segir að vinirnir hafi byrjað að grúska í tónlist þegar þeir voru krakkar en faðir Sakaris hafi átt upptökuver.
„Við fengum að prófa okkur áfram og leika okkur með hljóðfæri og græjur sem smástrákar. Þannig byrjaði það og var ekki aftur snúið. Við stofnuðum síðan hverja hljómsveitina á fætur annarri og erum báðir starfandi tónlistarmenn í dag.“
Janus kemur frá Þórshöfn í Færeyjum en flutti til Íslands árið 2004 með færeyskri hljómsveit sem hét Speaker. Hljómsveitin ferðaðist um allt land og spilaði meðal annars á listahátíðinni Lunga þar sem Janus kynntist meðlimum Bloodgroup og gekk í kjölfarið til liðs við sveitina. „Þá var ég með annan fótinn á Íslandi og hinn í Færeyjum í nokkur ár þar til ég flutti endanlega til Íslands árið 2008 og hef búið hér síðan,“ segir hann.
Var næstum því hent af Hróarskeldu
Janus segir að margt skemmtilegt hafi komið upp á ferlinum og nefnir atvik með umræddri hljómsveit Bloodgroup þegar hún kom fram á Hróarskeldu fyrir nokkrum árum. „Ég man að umgjörðin var öll mjög alvarleg og Hallur, forsprakki Bloodgroup, þurfti að skrifa undir allskonar skilmála áður en við fengum að spila,“ rifjar hann upp.
Okkur var næstum því hent af hátíðinni en ég baðst fallega afsökunar og við fengum að vera áfram.
„Einn af skilmálunum var sá að við máttum ekki stökkva inn í þvöguna af sviðinu. En einhvern veginn fór það alveg fram hjá mér að það væri bannað. Tónleikarnir gengu eins og í sögu, við öll í stuði og ég tók upp á því í hita leiksins að stökkva fram af og „crowdsurfa.“ Restin af hljómsveitinni horfir síðan á mig fljóta um í áhorfendaskaranum og var í hálfgerðu sjokki. Skipuleggjendur Hróarskeldu brjáluðust. Okkur var næstum því hent af hátíðinni en ég baðst fallega afsökunar og við fengum að vera áfram.“
Auðveldara að vera tónlistarmaður á Íslandi
Þrátt fyrir að hafa komið að mörgum tónlistarverkefnum á Íslandi segist Janus þó ekki hafa gleymt því hversu mikið er af hæfileikaríku tónlistarfólki í Færeyjum. Þannig hafi hann og færeyska tónlistarkonan Guðrið Hansdóttir, úr popp-hljómsveitinni Byrta, unnið að einu tónlistarverkefni saman og það hafi verið með því skemmtilegasta sem hann hafi gert hingað til. „Að fá að vinna aftur á færeysku eftir að hafa búið á Íslandi svona lengi var frábært. Gaman að búa til færeyskt popp fyrir færeyskan markað.“
Að sögn Janusar er listasenan í Færeyjum í sífeldum blóma. Þar sé margt virkilega hæfileikaríkt og flott tónlistarfólk. Hins vegar sé töluvert erfiðara að starfa eingöngu sem tónlistarmaður í Færeyjum en á Íslandi. Það sé ein ástæða þess að sumt færeyskt tónlistarfólk sest að á Íslandi, líkt og hann sjálfur.
„Þar er mun smærri markaður og erfitt að takmarka sig við eina ákveðna tónlistarstefnu,“ útskýrir hann og bætir við að þjóðirnar tvær séu að mörgu leyti svipaðar en Færeyingar stígi þó örlítið varlega til jarðar á meðan Íslendingar séu djarfari. „Hér er síðan líka stútfullt af skapandi fólki. Ísland er nógu stórt til þess að rýma allt þetta hæfileikaríka fólk en nógu lítið til þess að auðvelt sé að sækja í það fólk sem maður vill vinna með.“
Þess má geta að fram undan hjá Janusi er tónleikaferðalag með Christian Löffler.