Ljósmyndarinn Caitlin Domanico byrjaði að fanga myndir af móðurhlutverkinu árið 2007, en hún missti sjálf móður sína árið 2003 þegar hún var aðeins tuttugu ára gömul.
„Ég var heilluð af nánu sambandi sem sést vel á milli nýrrar móður og barns. Þegar ég horfi til baka get ég sagt að samband mitt við mína eigin móður hafði mikil áhrif á mig,“ segir ljósmyndarinn í samtali við Huffington Post.
Caitlin hefur tekið aragrúa mynda sem fanga þetta samband á milli móður og barns og vakti til að mynda athygli fyrir myndaseríuna United We Feed sem sýndi mæður gefa börnum sínum næringu á ýmsan hátt. Svo var það árið 2017 að hún gaf út bókina Photographing Motherhood: How to Document the Lives of Women and Their Families ásamt ljósmyndaranum Jade Beall en í bókinni voru myndir af mæðrum á ýmsum stigum lífsins. Caitlin segir fegurðina liggja í smáatriðunum.
„Smáatriðin fanga auga mitt – hvernig barn heldur í hálsmen móður sinnar á meðan það nærist, hvernig móðir strýkur tær barns síns mjúklega, hvernig barn nálgast hár móður sinnar og snýr því upp á fingur sér,“ segir ljósmyndarinn og bætir við:
„Ég reyni að skrásetja þessa agnarsmáu hluti sem komast svo fljótt í vana, eru svo hefðbundnir og virðast vera svo venjulegur þangað til einn daginn – á augnabliki er virðist – hverfa þeir er börnin okkar vaxa úr grasi.“
Aðalmarkmið Caitlin er að gefa fjölskyldum góðar minningar með myndum sínum og hvetur foreldra til að stilla sér oftar upp með börnum sínum á mynd.
„Ég vona að myndirnar veki upp góðar minningar úr barnæsku eða frá fyrstu árum barnsins. Ég vona að þetta veiti fólki innblástur til að stíga fyrir framan myndavélina, hvernig sem það er klætt og þó það sé ekki farðað eða með fullkomið hár og hvað sem vigtin sýnir.“
Myndir / Caitlin Domanico