Páll Winkel fangelsismálastjóri segir að til standi að rýmka aftur sóttvarnarreglur í fangelsum landsins á næstu dögum. „Vissulega er fólk í fangelsum orðið þreytt á ástandinu, alveg eins og fólk úti í samfélaginu.“
Hann segir að sífellt sé leitað leiða til að rýmka þau höft sem sett hafi verið á daglegt líf fanga, ofan á hefðbundna frelsissviptingu, vegna covid-faraldursins.
Þegar seinni bylgja kórónaveirunnar fór af stað í júlí voru sóttvarnaraðgerðir hertar að nýju í fangelsum eins og annars staðar, meðal annars með heimsóknarbanni. Eiginkona fanga á Litla Hrauni, Auður Haraldsdóttir, sagði frá því í samtali við Mannlíf í gær að jafnvel þótt hún megi nú aftur heimsækja manninn sinn sé það aðeins einu sinni í viku, í klukkustund í senn og þau megi ekki snertast. Þetta sé farið að leggjast þungt á andlega líðan þeirra beggja. Telur hún að tímabært sé orðið að hverfa frá svo stífum sóttvarnarreglum í fangelsunum, í samræmi við þær tilslakanir sem hafi orðið aftur í samfélaginu á síðustu vikum.
Verðum að gæta meðalhófs
Fangelsismálastjóri staðfestir að nú sé heimsókn frá aðeins einum nánum aðstandanda heimil, einu sinni í viku, en einnig barna ef það á við. Leitað sé álits fulltrúa sóttvarnarlæknis í hvert skipti sem til standi að herða reglur eða aflétta höftin. „Okkar meginmarkmið með þessum aðgerðum er að reyna að koma í veg fyrir að þessi veira dreifist inn í fangelsin,“ segir Páll.
Hingað til hefur þetta tekist, því enn sem komið er hefur ekkert kórónuveirusmit komið upp meðal fanga á Íslandi. Aðspurður hvort aðgerðir séu ekki of strangar, með hliðsjón af andlegri líðan fanga, segir Páll að bæði WHO og pyntinganefnd Evrópuráðsins hafi bent á að í fangelsum séu viðkvæmir hópar sem þurfi að vernda gegn heimsfaraldrinum.
„En um leið þurfum við auðvitað að gæta meðalhófs. Þess vegna er þetta sífellt til endurskoðunar. Við höfum í hyggju, ef allt gengur að óskum næstu daga, að rýmka reglur inni í fangelsunum.“
Lítið um fíkniefni innan múranna í faraldrinum
Þá standi til að heimila geðheilsuteymi að fara í öll fangelsin, en undanfarið hefur heilbrigðisstarfsfólk sinnt föngum í gegnum fjarfundabúnað. Hann undirstrikar að haldlögð fíkniefni í fangelsum hafi verið í algjöru lágmarki. Því sé tilefni til að hæla föngum fyrir góða frammistöðu á erfiðum tímum.
„Við höfum gert það sem í okkar valdi stendur til að gera lífið auðveldara fyrir fanga. Meðal annars með því að opna fyrir skype, gera öll símtöl út úr fangelsinu ókeypis og streyma ýmsa viðburði. Þannig reynum við að bjóða áfram upp á fjölbreytta afþreyingu og meðferðarstarf, þrátt fyrir þessa auknu einangrun sem vissulega felst í sóttvarnaraðgerðunum.“