Neytendastofa hefur sent þeim ferðaskrifstofum sem hafa leyfi frá Ferðamálastofu til sölu pakkaferða bréf þar sem fjallað er um skyldu fyrirtækjanna til upplýsingagjafar.
Í tilkynningu frá Neytendastofu kemur fram að stofnuninni hafa borist ábrendingar sem benda til þess að seljendur pakkaferða veiti ekki viðskiptavinum sínum nægar upplýsingar um ferðina áður en gengið er frá samningi. „Þá virðist einnig skorta á að ferðamönnum sé sendur pakkaferðasamningur í kjölfar kaupanna,“ segir einnig í tilkynningunni.
Vegna ábendinganna hefur Neytendastofa nú sent ferðaskrifstofunum leiðbeiningar um skyldur sínar. Í bréfinu er farið fram á úrbætur.
Neytendastofa tekur þá fram að gera megi ráð fyrir að stofnunin komi til með að taka til meðferðar mál gagnvart einstaka fyrirtækjum berist stofnuninni áfram ábendingar.