Sex farþegar sem komu með Norrænu til Seyðisfjarðar í morgun þurfa að fara í einangrun vegna COVID-19 smits sem kom upp í hópnum.
Fólkið sem um ræðir fer í einangrun í vinnubúðum á hálendinu í dag. Hópurinn hafði farið í sýnatöku í Hirtshals í Danmörku á þriðjudaginn var. Þar greindist einn með Covid-19 en hinir voru með neikvætt sýni. Síðan þá hafa sexmenningarnir verið í einangrun um borð í Norrænu.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Austurlandi. Þar segir enn fremur að hinn smitaði fari í mótefnamælingu í dag til að skera úr um hvort hann sé með gamalt eða nýtt smit. Reynist smitið vera gamalt megi búast við að allir sex losni úr einangruninni. Komi hið gagnstæða í ljós þurfi að skoða frekari ráðstafanir fyrir hópinn.
Alls var tekið á móti 730 farþegum Norrænu á Seyðisfirði í morgun. Tóku starfsmenn Heilbrigðisstofnunar Austurlands á móti sexmenningunum sem voru í einangrun og leiðbeindu þeim um framhaldið. Ekki er talið að aðrir farþegar ferjunnar hafi orðið útsettir fyrir smiti.