Sunnudagur 22. desember, 2024
-4.2 C
Reykjavik

Fárveiku ungbarni þvælt á milli sjúkrahúsa þar sem faðirinn vinnur á Keflavíkurflugvelli: „Bíðum enn eftir svörum um hvað amar að barninu okkar“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Við fórum í einu og öllu eftir þeim ráðleggingum sem okkur voru gefnar,“ segir ung móðir sex mánaða gamals drengs í samtali við Mannlíf.

Í gær birtist frétt á Suðurnes.net um það að foreldrum barnsins hefði verið meinaður aðgangur með hann að Heilbrigðisstofnun Suðurnesja þar sem faðir drengsins vinnur á Keflavíkurflugvelli. Segir móðirin að fréttinni hafi verið deilt á samfélagsmiðlum með þeirri gagnrýni að þau hefðu fyrst átt að hringja í númerið 1700 í stað þess að mæta bara.

„Sonur okkar var búinn að vera með mikið kvef og ljótan hósta, en engan hita í tvo daga. Á föstudag fórum við með hann í Domus og fengum púst fyrir hann sem við áttum að gefa þrisvar á dag. Í gær fór honum svo versnandi og mældi amma hans hann með háan hita og hringdi í 1700 til að fá leiðbeiningar. Var okkur ráðlagt að mæta á Barnaspítala Hringsins og láta skoða hann þar.“

Fjölskyldan býr á Suðurnesjum og var kominn klukkan 18 í Reykjavík og fór faðirinn einn inn á spítalann og sagði frá veikindum sonarins. Á meðan beið móðirin með barnið út í bíl. Föðurnum hafði verið ráðlagt að láta vita að hann ynni á bílaleigu við Keflavíkurflugvöll og greindi hann frá því.

„Læknarnir tóku sér smá tíma í að ákveða hvað ætti að gera. Maðurinn minn kemur síðan út í bíl með þau svör að við eigum að hringja í 1700 og fá lækni heim, en hann var búinn að segja þeim frá að við byggjum í Reykjanesbæ,“ segir móðirin, og bætir við að fjölskyldan hafi verið komin að Álverinu á leiðinni heim þegar þau náðu sambandi við 1700.

Röng skilaboð á Barnaspítalanum

- Auglýsing -

Í símtalinu var þeim tjáð að 1700 sendi ekki lækni heim til þeirra í Reykjanesbæ og Barnaspítalinn hefði ekki átt að vísa þeim frá. „Konan sem við töluðum við skráði athugasemd um þetta undir kennitölu sonar okkar og ráðlagði okkur, þar sem við erum komin langleiðina heim, að fara á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja (HSS).“

Fjölskyldan kom síðan þangað og faðirinn fór aftur einn inn meðan móðirin og sonurinn biðu út í bíl. „Þarna er hann búinn að vera fárveikur í bílnum í um tvo og hálfan klukkutíma. Og við tekur 30 mínútna bið í viðbót.“

Faðirinn talaði fyrst við fjölskyldumeðlim sem starfar á HSS, sem ræddi síðan við yfirhjúkrunarfræðing. „Tengdamóðir mín var síðan mætt líka til að lýsa hvernig ástandið á syni okkar var og ítrekaði hún að það þurfi að skoða barnið. Síðan var okkur vísað inn um annan inngang, og þau sem tóku á móti okkur voru búin að setja upp grímur og slíkt. Eftir skoðunina þá var enginn grunur um kórónaveiruna, heldur RS,“ segir móðirin og segir þau hafa fengið símtal frá Barnaspítalanum með afsökunarbeiðni og boði um að sonurinn fengi innlögn þar yfir nóttina.

- Auglýsing -

Fjölskyldan stoppaði við heima til að sækja mjólk handa barninu og fleiri nauðsynjar og voru komin aftur til Reykjavíkur um klukkan 23 um kvöldið, á Barnaspítalanum tók hjúkrunarfræðinemi á móti heim og sonurinn var mældur. „Hann var laus við hita (mældur undir handarkrika). Síðan tók við bið eftir lækni og hann skoðar barnið, hlustar og skoðar háls,“ segir móðirin.

Fékk rúm og tengdur við mettunarmæli eftir rúmlega tveggja tíma bið

Móðirin segir lækninn hafa haft mestan áhuga á hvernig þeim var þvælt fram og tilbaka og segist hún hafa verið beðin um að endurtaka það nokkrum sinnum. Milli klukkan eitt og tvö um nóttina fékk sonur hennar síðan loksins rúm og var tengdur við mettunarmæli klukkan tvö um nóttina eftir að móðir hennar, sem komin var á spítalann þeim til aðstoðar, fór og spurði.

„Hún fékk það svar að það væri hægt ef við vildum,“ segir móðirin. „Okkar upplifun var sú að þau vildu frekar fá að vita hvað fór úrskeiðis, heldur en að reyna að komast að hvað var að syni okkar.,“ segir móðirin, en fjölskyldan fór frá Barnaspítalanum um eittleytið í dag með engin svör um hvað amaði að fimm mánaða gömlum syni þeirra.

„Það skoðaði enginn læknir hann áður en við fórum, og við eigum bara að koma aftur ef hann á erfitt með öndun,“ segir móðirin. „Við höfum ennþá ekki fengið símtal eða svar við sýnum um hvað er að barninu okkar. Hann er ekki eins og hann á að sér, hann er með ljótan hósta og stíflaður, er vælinn inn á milli.“

Bætir móðirin við að þau hafi farið í einu og öllu að þeim ráðleggingum sem þau fengu í upphafi, en ekki bara mætt á staðinn, eins og þau hafa verið gagnrýnd fyrir eftir að fréttin birtist í gær.

„Það sem ég skil ómögulega ekki er að pabbinn sem vinnur við að hitta fólk frá löndum þar sem eru smit má standa inni á þessum stöðum, en barn sem þarf læknishjálp verður að bíða úti í bíl.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -