Sundlaugar voru opnaðar á miðnætti eftir að hafa verið lokaðar síðan 23. mars vegna kórónaveirufaraldursins. Langar raðir mynduðust fyrir utan sundlaugarnar í gærkvöldi. Sigurður Víðisson, forstöðumaður Laugardalslaugar, segir ungt fólk hafa verið í meirihluta gesta í gær og í nótt. Hann segir að núna í morgunsárið hafi fastagestir flykkst í laugina. Þessu greindi hann frá í samtali við Morgunútvarp Rásar 2.
Allt að 350 manns mega fara ofan í Laugardalslaug. Sigurður segir að klukkan korter í eitt eftir miðnætti í nótt hafi verið uppselt í laugina. Hann segir greinilegt að fólk hafa verið farið að þyrsta í að komast í sund.
Hann segist sjálfur ekki hafa búist við þessum miklu röðum. „Þetta var mjög gaman,“ sagði Sigurður.
Aðspurður hvort að sundlaugargestir séu að virða tveggja metra regluna svaraði Sigurður játandi. „Það myndaðist smá tappi í nótt en núna er allt eins og eftir bókinni.“