Hinn 28 ára Ryan Harding þjáist af alvarlegum húðsjúkdómi og segist hafa setið í einskonar stofufangelsi síðastliðið ár.
Ryan leitaði til læknis þegar hann fór að fá útbrot í hnésbótina, hann segist hafa fengið háan skammt af sterum sem áttu að hjálpa honum að losna við útbrotin en virkuðu öfugt, þau dreyfðust um allan líkamann. Ryan fór þá á bráðamóttöku þar sem honum voru gefin önnur steralyf, í þetta skipti lægri skammt, auk krems. Útbrotin löguðust og honum fór að líða betur, allt þar til hann kláraði lyfjakúrinn en þá snarversnuðu einkennin.
Blöðrur og útbrot með grefti brutust út um allan líkamann, hann skalf úr sársauka og kláðinn var óbærilegur. Líkami hans tók fráhvörfunum illa, líkamshiti hans fór úr því að vera allt of hár í að vera of lágur til skiptis.
Hann fór aftur á slysadeild þar sem honum var gefið vökvi í æð og enn annar skammturinn af sterum. Atburðarásin endurtók sig, honum leið betur en um leið og hann hætti á sterunum snarversnaði ástandið.
Hann fór þá á annan sterakúr en í þetta skiptið var honum gefið ónæmisbælandi lyf til að koma í veg fyrir fráhvarfseinkenni. Hann lá inni á sjúkrahúsi í níu daga.
Ryan hefur verið í þessum vítahring í rúmt ár, hann hefur ekki treyst sér til að fara út úr húsi. „Ég hef aldrei glímt við andleg veikindi en þetta ár er búið að vera hræðilegt, ég hef gengið svo langt að skaða sjálfan mig. Ég hef aldrei á ævinni grátið svona mikið“
Síðar kom í ljós að Ryan þjáist af því sem er kallað „staðbundið stera fráhvarfsheilkenni“ en það felur í sér hræðileg viðbrögð líkamans við steranotkun. Oft verður sjúkdómurinn til upp úr notkun á sterum við exemi. Þeir sem glíma við þennan sjúkdóm festast í vítahring þar sem einkennin batna en snarversna svo, sterarnir virka minna með hverjum kúrnum. Margir þeirra sem kljást við sjúkdóminn eru „fastir“ heima við svo mánuðum og jafnvel árum skiptir.
Ryan hefur ekki getað sinnt vinnu sinni sem pípari í meira en sjö mánuði. „Sem betur fer er kærastan mín að vinna, auk þess á ég einhvern sparnað en þetta setur mikla streitu á sambandið. Ég hef ekki getað hitt vini mína né gert neitt af því sem maður á að njóta þess að gera á meðan maður er ungur. Ég hef lítið getað hreyft mig en áður elskaði ég að fara í ræktina, stundum kemst ég í göngutúra “ Ryan segist hafa brotið nokkur bein yfir ævina, spilað amerískan fótbolta alla tíð en aldrei nokkurntíman fundið sársauka í líkingu við þennan.
„Ég vil fræða fólk um sjúkdóminn, það vita ekki margir að svona lagað geti gerst. Ég væri aldrei í þessari stöðu ef það væri ekki fyrir lyfin.“